Fara í efni
20.10.2025

Menningar- og nýsköpunar- og háskólaráðherra heimsótti austfirskar menningar- og nýsköpunarmiðstöðvar

Deildu

Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, heimsótti Austurland 16. október síðastliðinn.
Á ferðinni kynnti hann sér menningar- og nýsköpunarstarf á svæðinu og ræddi við fulltrúa sveitarfélaga og stofnana um framtíðarsýn í mennta- og menningarmálum á Austurlandi.

Ferðin hófst í Háskóla Íslands á Hallormastað og þaðan var svo haldið í Sláturhúsið á Egilsstöðum, sem hefur á undanförnum árum þróast í öfluga menningarmiðstöð og vettvang fyrir skapandi greinar. Þar tók ráðherra þátt í fundi með Jónu Árný Þórðardóttur, bæjarstjóra Fjarðabyggðar, Dagmar Ýr Stefánsdóttur, sveitarstjóra Múlaþings, og Bryndísi Fionu Ford, framkvæmdastjóra Austurbrúar.
Á fundinum var farið yfir fjölmörg verkefni sem eru í gangi á Austurlandi, meðal annars tengd menningarmiðstöðvum og nýsköpunarverkefnum. Rætt var um mikilvægi samstarfs sveitarfélaga, ríkis og stofnana við að styrkja innviði fyrir skapandi starfsemi.

Logi Einarsson, ráðherra, Dagmar Ýr, sveitarstjóri Múlaþings og Jóna Árný.

Í kjölfarið heimsótti ráðherra Sköpunarmiðstöðina á Stöðvarfirði, þar sem hann kynnti sér starfsemi hennar. Þar tóku á móti hópnum Valborg Ösp Á. Warén, verkefnastjóri Sterks Stöðvarfjarðar, og Lukasz Stencel, frá Sköpunarmiðstöðinni.
Rætt var hvernig skapandi verkefni og frumkvöðlastarf geta eflt byggðarlög og skapað störf á landsbyggðinni, sérstaklega í samfélögum þar sem menning, sjálfbærni og frumkvæði haldast í hendur.

Frá Stöðvarfirði lá leiðin til Eskifjarðar, þar sem ráðherra kynnti sér endurbyggingu Gamla barnaskólans. Hollvinasamtök barnaskólans á Eskifirði hafa staðið fyrir endurnýjun skólans á síðustu árum og er sú vinna nú á loka metrunum.  Mikilvægur áfangi í verkefninu náðist fyrr á árinu þegar Háskóli Íslands, Fjarðabyggð og menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra skrifuðu undir viljayfirlýsingu um að Háskóli Íslands komi þar á fót rannsóknarsetri. 
Lesa má nánar um það í í frétt á vef Fjarðabyggðar.

Að lokum var Tónlistarmiðstöð Austurlands heimsótt. Þar bauð ráðherra upp á opna viðtalstíma og gaf íbúum og hagsmunaaðilum færi á að ræða málefni menningar, nýsköpunar og háskólastarfs við hann beint.