Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, heimsótti Austurland 16. október síðastliðinn.
Á ferðinni kynnti hann sér menningar- og nýsköpunarstarf á svæðinu og ræddi við fulltrúa sveitarfélaga og stofnana um framtíðarsýn í mennta- og menningarmálum á Austurlandi.
Ferðin hófst í Háskóla Íslands á Hallormastað og þaðan var svo haldið í Sláturhúsið á Egilsstöðum, sem hefur á undanförnum árum þróast í öfluga menningarmiðstöð og vettvang fyrir skapandi greinar. Þar tók ráðherra þátt í fundi með Jónu Árný Þórðardóttur, bæjarstjóra Fjarðabyggðar, Dagmar Ýr Stefánsdóttur, sveitarstjóra Múlaþings, og Bryndísi Fionu Ford, framkvæmdastjóra Austurbrúar.
Á fundinum var farið yfir fjölmörg verkefni sem eru í gangi á Austurlandi, meðal annars tengd menningarmiðstöðvum og nýsköpunarverkefnum. Rætt var um mikilvægi samstarfs sveitarfélaga, ríkis og stofnana við að styrkja innviði fyrir skapandi starfsemi.

Í kjölfarið heimsótti ráðherra Sköpunarmiðstöðina á Stöðvarfirði, þar sem hann kynnti sér starfsemi hennar. Þar tóku á móti hópnum Valborg Ösp Á. Warén, verkefnastjóri Sterks Stöðvarfjarðar, og Lukasz Stencel, frá Sköpunarmiðstöðinni.
Rætt var hvernig skapandi verkefni og frumkvöðlastarf geta eflt byggðarlög og skapað störf á landsbyggðinni, sérstaklega í samfélögum þar sem menning, sjálfbærni og frumkvæði haldast í hendur.
Frá Stöðvarfirði lá leiðin til Eskifjarðar, þar sem ráðherra kynnti sér endurbyggingu Gamla barnaskólans. Hollvinasamtök barnaskólans á Eskifirði hafa staðið fyrir endurnýjun skólans á síðustu árum og er sú vinna nú á loka metrunum. Mikilvægur áfangi í verkefninu náðist fyrr á árinu þegar Háskóli Íslands, Fjarðabyggð og menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra skrifuðu undir viljayfirlýsingu um að Háskóli Íslands komi þar á fót rannsóknarsetri.
Lesa má nánar um það í í frétt á vef Fjarðabyggðar.

Að lokum var Tónlistarmiðstöð Austurlands heimsótt. Þar bauð ráðherra upp á opna viðtalstíma og gaf íbúum og hagsmunaaðilum færi á að ræða málefni menningar, nýsköpunar og háskólastarfs við hann beint.