Fara í efni
17.12.2025 Menning, Fréttir

Menningarinnviðir í Fjarðabyggð styrktir með nýjum samningi til 2029

Deildu

Nýr menningarsamningur milli ríkisins, Austurbrúar og sveitarfélaganna Fjarðabyggðar og Múlaþings var undirritaður í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði 11. desember. Samningnum er ætlað að styrkja menningarinnviði á Austurlandi og auka fyrirsjáanleika í rekstri menningarmiðstöðva á svæðinu – þar á meðal í Fjarðabyggð.

Með samningnum er stuðningur við menningarmiðstöðvar landshlutans tryggður til næstu ára. Menningarstofa Fjarðabyggðar er þar áfram í lykilhlutverki, en einnig njóta Skaftfell á Seyðisfirði og Sláturhúsið Menningarmiðstöð stuðnings. Nú bætist Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði í Fjarðabyggð við sem fjórða menningarmiðstöðin á Austurlandi, sem styrkir heildina og eykur samstarf og tækifæri á svæðinu.

Fjármögnun tryggð til 2029

Í samningnum er kveðið á um að framlag ríkisins aukist jafnt og þétt út samningstímann og verði 76 milljónir króna árið 2029. Gert er ráð fyrir að framlag sveitarfélaganna aukist í takt við framlag ríkisins og með því sé rekstrargrundvöllur menningarmiðstöðvanna styrktur til næstu ára. Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, segir markmið samningsins vera að tryggja jafnt aðgengi að menningu óháð búsetu.

„Menning er ekki bara lífsgæði, menning er límið í hverju samfélagi – hvar sem við erum og hver sem við erum,“ sagði ráðherra við undirritun. Í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu hefur jafnframt verið greint frá því að unnið verði að sambærilegum menningarsamningum við fleiri landshluta á næstu árum, þar sem byrjað er á þeim svæðum sem lengst eru frá höfuðborgarsvæðinu.

Stórt skref fyrir menningarlíf í Fjarðabyggð

Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, segir undirritun samningsins stórt skref fyrir Austurland og Fjarðabyggð.

„Hann styrkir menningarinnviði okkar og gerir fjármögnun menningarmiðstöðvanna mun fyrirsjáanlegri til næstu ára. Það skiptir samfélagið okkar miklu að geta byggt upp öflugt menningarlíf um allt Austurland og það er sérstaklega ánægjulegt að Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði bætist nú í hópinn sem fjórða menningarmiðstöðin.“

Dagmar Ýr Stefánsdóttir, sveitarstjóri Múlaþings, segir samkomulagið skipta sköpum fyrir rekstur menningarmiðstöðvanna og bendir á mikilvægi þeirra fyrir fjölbreytt menningarverkefni, barnamenningu, fræðslu og grasrótarstarf á sviði lista og menningar.

Signý Ormarsdóttir, verkefnastjóri menningarmála hjá Austurbrú, segir að löng og markviss vinna hafi legið að baki því að Sköpunarmiðstöðin yrði hluti af samningnum og að framtíðarsýn Austurlands sé að byggja upp nokkrar sterkar menningarmiðstöðvar fremur en eina.

„Sköpunarmiðstöðin styrkir heildina með áherslu á skapandi greinar, vinnustofur, listamannadvalir og viðburði. Með nýjum samningi er tryggt fjármagn frá ríki og sveitarfélögum til næstu fjögurra ára, sem skapar sterkan og fyrirsjáanlegan grundvöll fyrir áframhaldandi samstarf og uppbyggingu lista og menningar á Austurlandi.“

Ljósmyndir: Austurbrú