Fara í efni
16.05.2019 Fréttir

Menntamálastofnun og Fjarðabyggð gera með sér samstarfssamning um snemmtæka íhlutun og læsi í leikskóla

Deildu

Verkefnið er unnið út frá hugmyndum og í samræmi við áherslur sem settar voru fram í Þjóðarsáttmála um læsi 2015 og byggist á þróunarverkefni Ásthildar Bj. Snorradóttur. Markmið þess er að öll börn í leikskólum Fjarðabyggðar nái góðum árangri hvað varðar mál, tal og boðskipti og undirbúning fyrir frekara lestrarnám.

Lögð verður áhersla á að auka þekkingu og hæfni starfsfólks leikskólanna þannig að hvert barn fái íhlutun og kennslu við hæfi og að kennsla í grunnskólum byggi á niðurstöðum og áherslum frá leikskólum. Þannig verði stuðlað að aukinni samfellu milli skólastiga.

Með þessu samstarfsverkefni mun Fjarðabyggð taka þátt í að efla málþroska og læsi barna auk þess að valdefla starfsfólk leikskólanna með aðferðum snemmtækrar íhlutunar í leikskóla.

Verkefnið stendur yfir frá maí 2019 til maí 2020 og hófst í gær með sameiginlegum fundi þeirra Elsu Pálsdóttur og Andreu Önnu Guðjónsdóttur læsisráðgjöfum hjá Menntamálastofnun, með fulltrúum Skólaskrifstofu Austurlands og leikskólanna í Fjarðabyggð.