Síðastliðnar tvær vikur hefur Tinna Þorvalds Önnudóttir dvalið í Jensenshúsi á Eskifirði þar sem hún hefur fengist við að teikna myndir við söguljóð ljóðskáldsins Christian Hege sem hann byggir á nokkrum Grimms ævintýrum.
Föstudaginn 15. apríl kl. 16:00-18:00 býður Tinna og Menningarstofa Fjarðabyggðar gestum og gangandi að sjá afrakstur dvalarinnar ásamt fleiri myndverkum Tinnu í Þórsmörk, Þiljuvöllum 11, í Neskaupstað. Auk þess mun hún lesa upp söguljóð Christians Hege og velta fyrir sér þjóðsögum og þjóðlögum.
Um Tinnu:
Auk þess að vera myndhöfundur er Tinna leik- og söngkona og er einn listrænna stjórnenda Leikhópsins Spindrift.
Í teikningum sínum veltir Tinna yfirleitt fyrir sé línunni milli dramatíkur og húmors, hins mikilfenglega og hins hversdagslega. Finnur einfaldleikann í flækjunni miðri.
Þetta er í fyrsta skipti sem Tinna tekur að sér að myndskreyta sögu í samstarfi við rithöfund og hún er spennt að deila verkinu hér í vinnslu.
Léttar veitingar verða á boðstólnum og athugið að sýningin er aðeins föstudaginn langa. Allir velkomnir.