Fara í efni
06.11.2025 Fréttir, Skólar

Ný viðbygging við leikskólann Dalborg á Eskifirði tekin í notkun – stórt skref fyrir leikskólamál í Fjarðabyggð

Deildu

Með nýrri viðbyggingu við leikskólann Dalborg á Eskifirði tekur Fjarðabyggð stórt skref í leikskólamálum. Verkefnið hefur verið lengi í undirbúningi og tryggir nú betri aðstöðu fyrir börn og starfsfólk.

Þriðjudaginn 4. nóvember var formlega opnuð ný viðbygging við leikskólann Dalborg á Eskifirði, en þar hefur verið þröngt um bæði börn og starfsfólk um langt skeið. Við það tækifæri var haldið opið hús þar sem gestum gafst kostur á að skoða nýju aðstöðuna og þiggja veitingar.
Heildarstækkun leikskólans nemur um 442 fermetrum, sem skilar verulegri rýmkun á leik- og starfsmannaaðstöðu.

Nútímaleg og björt aðstaða fyrir börn og starfsfólk

Þórdís Mjöll Benediktsdóttir, leikskólastjóri Dalborgar, segir nýju bygginguna hafa gjörbreytt starfsaðstæðum og starfsanda á leikskólanum:

„Þetta hefur sannarlega breytt miklu fyrir okkur. Nýja húsnæðið uppfyllir öll nútímaskilyrði varðandi stærð rýma og betra andrúmsloft, sem hefur jákvæð áhrif á starfsandann og gleði barnanna. Það er einstaklega ánægjulegt að sjá hversu mikið þetta hefur bætt aðstæður fyrir bæði starfsfólk og börn,“ segir Þórdís Mjöll.

Framkvæmd sem byggir til framtíðar

Árið 2017 var tekin ákvörðun um að stækka leikskólann úr þriggja deilda leikskóla í fimm deilda og ráðast samhliða í endurbætur á eldra húsnæði. Hönnun hófst sama ár, en framkvæmdir frestuðust fram til ársins 2020.
Elsta deildin hefur verið rekin í grunnskólanum á Eskifirði frá árinu 2013, en nú – eftir 12 ára fjarveru – sameinast hún á ný við Dalborg undir eitt og sama þak.

Framkvæmdina annaðist Launafl, sem var yfirverktaki verksins. Einingar hússins komu frá MVA á Egilsstöðum, Trévang sá um innréttingar, Ólafur Jónsson dúklagningameistari sá um frágang gólfa, Torfkofinn annaðist lóðina og Cowi sá um hönnun og eftirlit ásamt Batteríið arkitektum.

Samfélagið sameinast í gleðinni

Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, segir opnun viðbyggingarinnar vera mikinn áfanga fyrir samfélagið:

„Þetta er stór og gleðilegur dagur fyrir Eskifjörð og allt samfélagið í Fjarðabyggð. Með nýju húsnæðinu fá börn, starfsfólk og foreldrar bjart, rúmgott og heilnæmt umhverfi. Ég vil þakka og óska starfsfólki Dalborgar, foreldrum og íbúum íbúum innilega til hamingju með þennan áfanga.“

Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs, tekur undir það og segir framkvæmdina sýna metnað sveitarfélagsins í leikskólamálum:

„Það er einstaklega ánægjulegt að sjá þessa framkvæmd loksins verða að veruleika eftir margra ára undirbúning. Þetta sýnir þann metnað sem Fjarðabyggð leggur í leikskólamál og þá framtíðarsýn sem sveitarfélagið hefur þegar kemur að þjónustu við fjölskyldur.“

Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar, bendir á að viðbyggingin sé mikilvæg fjárfesting í framtíðinni:

„Það tók lengri tíma en við ætluðum að koma þessu verkefni í höfn. En með þessari viðbyggingu höfum við skapað betri aðstöðu fyrir börn og starfsfólk og byggt upp leikskóla sem mun þjóna samfélaginu til framtíðar líkt og í öðrum hverfum Fjarðabyggðar.

Viðhald fram undan á eldri byggingunni

Á næsta sumri er fyrirhugað að ráðast í viðhald á eldri hluta leikskólans. Að því loknu verður Dalborg tilbúin til að mæta þörfum næstu kynslóða leikskólabarna á Eskifirði í björtu, rúmgóðu og nútímalegu umhverfi.

Karitas Harpa Davísdóttir, Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs og fjölskyldunefndar, Þuríður Lillý Sigurðardóttir, formaður skipulags- og framkvæmdarnefndar og Þórdís Mjöll Benediktsdóttir, leikskólastjóri
 
Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri
Þuríður Lillý Sigurðarsóttir, formaður skipulags- og framkvæmdarnefndar ásamt Karitas Hörpu, Ragnari Sigurðssyni og Þórdísi Mjöll.
Fjölmennt var við opnunina og skemmtu börnin sér vel.