Fara í efni
22.09.2025

Nýr vefur Fjarðabyggðar kominn í loftið

Deildu

Fjarðabyggð hefur nú sett í loftið nýjan vef. Með honum er stigið stórt skref í átt að nútímalegri upplýsingagjöf og aukinni þjónustu við íbúa, fyrirtæki og aðra sem sækja sveitarfélagið heim.

Nýr vefur Fjarðabyggðar byggir á nútímalegri nálgun þar sem lögð er áhersla á að gera efnið skýrara, sjónrænt og auðveldara í notkun. Vefurinn er tengdur þjónustulausninni Vefþulu sem les upp texta af skjánum og lýsir jafnframt upp orð og setningar um leið og þau eru lesin. 

Ný ásýnd

Með nýjum vef var farið í að uppfæra sjónræna ásýnd Fjarðabyggðar og gefin hefur verið út vörumerkjahandbók í þeim tilgangi að tryggja samræmi í allri miðlun sveitarfélagsins og móta sterka og faglega heildarmynd. 

Eldri vefur

Eldri vefur, sem var settur í loftið árið 2014, þjónaði sveitarfélaginu vel á sínum tíma en er orðinn barn síns tíma. Hann einkenndist af miklum texta, myndrænt efni var af skornum skammti og möguleikar til leitar og þjónustu voru takmarkaðir. Þörfin fyrir nýjan, notendavænni og aðgengilegri vef var því orðin brýn.

Eldri vefur Fjarðabyggðar

Undirbúningur

Undirbúningur að nýjum vef hófst síðastliðið haust og í byrjun þessa árs var ráðist í hönnun og uppsetningu. Í framhaldinu var unnið að skipulagningu veftrés og innsetningu efnis.  Verkefnið var unnið í nánu samstarfi við öll svið sveitarfélagsins, nefndir og ásamt því að starfsfólki var gefin kostur á að koma með athugasemdir og ábendingar. 

Craft CMS

Vefurinn er byggður á vefumsjónarkerfinu Craft CMS sem er svokallað open source kerfi, ekki ósvipað og WordPress. Það er hannað til að vera bæði sveigjanlegt og öflugt og auðveldar áframhaldandi þróun nýrra lausna í takt við þarfir sveitarfélagsins. Uppsetningu og tæknilega útfærslu vefsins annaðist Stefna, sem sérhæfir sig í upplýsingatækni og hugbúnaðarþróun á sviði veflausna.

Forsíðumyndin er af Reyðarfirði

Öll þjónusta á einum stað

Á vefnum er nú hægt að nálgast allar helstu upplýsingar um þá fjölbreyttu þjónustu sem í boði er, eins og opnunartíma bókasafna, sundlauga og móttökustöðva. Íbúar geta þar einnig sótt um leikskóladvöl, leigu á félagsmiðstöð eða sótt um sorptunnu, svo eitthvað sé nefnt. Er markmiðið að öll þjónusta sveitarfélagsins verði aðgengileg á vefnum.  Þá er einnig boðið upp á rafrænt spjall við þjónustufulltrúa sem auðveldar íbúum að fá svör við sínum málum án þess að þurfa að hafa samband með hefðbundnum hætti.

„Með nýjum vef leggjum við áherslu á að íbúar og fyrirtæki í Fjarðabyggð hafi greiðan aðgang að öllum helstu upplýsingum og þjónustu á einum stað. Vefurinn gerir íbúum kleift að nálgast upplýsingar og þjónustu þegar þeim hentar, hvort sem það er á skrifstofunni, heima eða á ferðinni,“ segir Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri.

Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs, tekur í sama streng og segir nýjan vef endurspegla framtíðarsýn sveitarfélagsins. „Þetta er mikilvægur áfangi í stafrænni þróun Fjarðabyggðar. Nýr vefur gerir okkur kleift að mæta þörfum íbúa með nútímalegum hætti og byggja upp skilvirkari og gagnsærri þjónustu.“

Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar, segir nýjan vef vera dæmi um hvernig stafrænar lausnir geti auðveldað lífið. „Þjónusta sveitarfélagsins á að vera einföld og aðgengileg. Með nýjum vef tryggjum við að allir geti nálgast upplýsingar og sinnt sínum málum á fljótlegan hátt, óháð tíma og stað.“

Stefán Þór Eysteinsson, oddviti Fjarðalistans í bæjarstjórn, leggur áherslu á mikilvægi vefsins fyrir íbúa. „Með nýjum vef verður auðveldara fyrir íbúa að nálgast þjónustu sveitarfélagsins og allar helstu upplýsingar á einum stað. Þetta er stór skref fram á við sem bætir þjónustuna tengsl Fjarðabyggðar við íbúa sína“

Með nýjum vef hefur Fjarðabyggð fest sig í sessi sem framsækið sveitarfélag sem leggur áherslu á stafræna þjónustu og gagnsæi í upplýsingagjöf. Stefnt er að því að þróa vefinn áfram og bæta við nýjum lausnum sem styðja við daglegt líf íbúa og efla samskipti við samfélagið.