Viðbragðsaðilar brugðust hratt við, og vil ég nota þetta tækifæri til að koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem komu að verkum í dag með einum eða öðrum hætti. Vinna við rýminguna í dag gekk vel fyrir sig, og það er stórkostlegt að fá að fylgjast með hvernig samfélagið stóð allt sem eitt saman þegar á reynir og taka þátt í störfum þessa samhæfða og góða hóps. Auðvitað er alltaf eitthvað sem má betur fara þegar svona atburðir verða. Til að mynda mætti upplýsingagjöf alltaf vera betri og ég vill fullvissa fólk um að þegar frá líður munu viðbragðsaðilar sitjast niður, eins og alltaf er gert, og fara yfir það sem sem betur mátti fara.
Ofanflóðahættan vofir enn yfir, og ljóst að þeir sem þurftu að rýma hús sín munu ekki fá að snúa fyrr en í fyrsta lagi á morgun. Það er samt mest um vert að búið er að koma öllum burt af því svæði sem hætt er á og allir að komast í öruggt skjól fyrir nóttina. Við verðum svo bara að fylgjast vel með stöðu mála og taka því sem að höndum ber í þessu.
Atburðir eins og þeir sem hér hafa átt sér stað í dag, sýna svo ekki verði um villst mikilvægi þeirra varnarmannvirkja sem reist hafa verið á undanförnum árum, og auðvitað einnig sýnir þetta mikilvægi þess að þeim framkvæmdum sem eftir eru verði lokið sem fyrst. Á það treystum við eftir atburði dagsins.
Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar