Bæjarráð Fjarðabyggðar og sveitarstjórn Múlaþings lýsa yfir gríðarlegum vonbrigðum með samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar og þá köldu kveðju sem hún felur í sér fyrir fjórðunginn. Ljóst er að Austurland er sett í frost. Breytingar á samgönguáætlun verða að byggja á faglegum forsendum og vönduðum rökum. Hún er lykiltæki til að tryggja gagnsæi og fyrirsjáanleika í innviðauppbyggingu. Framþróun sveitarfélaga má ekki ráðast af mismunandi pólitískum áherslum ráðherra hverju sinni. Trúverðug forgangsröðun er forsenda þess að sveitarfélög og atvinnulíf geti skipulagt uppbyggingu til lengri tíma. Að engar stórar framkvæmdir skuli vera á fyrsta tímabili fyrir Austurland er óásættanlegt. Slík niðurstaða gengur þvert á gefin fyrirheit um að hækkun veiðigjalda myndi skila sér aftur til samfélaganna og skapa fjárhagslegt svigrúm til innviðafjárfestinga. Austurland er næst í röð jarðgangaverkefna og ólíðandi er að horfa fram hjá þeirri staðreynd. Bæjarráð Fjarðabyggðar og sveitarstjórn Múlaþings krefjast þess að Alþingi taki tillögu að samgönguáætlun til heildstæðrar endurskoðunar og tryggi Austurlandi réttmæta og sanngjarna hlutdeild í framkvæmdum á fyrsta tímabili hennar.
16.12.2025
Sameiginleg bókun sveitarfélaganna Fjarðabyggðar og Múlaþings.
