Bæjarráð samþykkir að vinna áfram að kostnaðar- og verkáætlun á grunni nýbyggingar við sundlaugina.
Starfshópur á vegum Fjarðabyggðar hefur lokið vinnu sinni við greiningu á stöðu og framtíð íþróttaaðstöðu á Eskifirði. Í niðurstöðum hópsins eru kynntar þrjár sviðsmyndir, þar sem metnir eru kostir og gallar mismunandi leiða til endurnýjunar eða nýbyggingar íþróttahússins.
Í skýrslunni eru bornar saman þrjár leiðir:
- Endurbætur á núverandi húsi
- Nýbygging á núverandi staðsetningu
- Nýtt íþróttahús á lóð við sundlaugina á Eskifirði
Fyrsta sviðsmyndin, sem gerir ráð fyrir endurbótum, er talin fela í sér verulegar áskoranir vegna aldurs og ástands hússins. Önnur sviðsmyndin, nýbygging á sama stað, myndi tryggja nútímalega aðstöðu en býður upp á takmarkað svigrúm til framtíðar. Þriðja sviðsmyndin felur í sér nýbyggingu við sundlaugina, þar sem húsið gæti orðið hluti af samfelldu íþrótta- og frístundasvæði með sameiginlegri aðstöðu og orkunýtingu.

Starfshópurinn telur að nýbygging við sundlaugina sé hagkvæmasti kosturinn til framtíðar, bæði út frá rekstri, samnýtingu og heildstæðri framtíðarsýn um íþrótta- og skólaaðstöðu.
Bæjarráð Fjarðabyggðar fjallaði nýverið um málið og samþykkti að fela starfshópnum að vinna áfram að útfærslu kostnaðar- og verkáætlunar fyrir framkvæmdina á grunni þriðju sviðsmyndarinnar. Með þeirri ákvörðun hefst næsta skref í vinnunni við að móta framtíð íþróttaaðstöðu á Eskifirði, þar sem áhersla verður lögð á faglegan undirbúning og víðtækt samráð áður en endanleg ákvörðun verður tekin.
Niðurstöður starfshópsins má lesa hér: Starfshópur um nýtt íþróttahús
