Föstudaginn 23. janúar síðastliðinn bauð Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, byggingarverktökum og tengdum aðilum á súpufund á skrifstofu sveitarfélagsins. Tilgangur fundarins var að kynna niðurstöður húsnæðiskönnunar um húsnæðisþörf íbúa 60 ára og eldri og ræða helstu áherslur til framtíðar. Fyrir fundinn hafði öldungaráði fengið kynningu á niðurstöðunum.
Könnunin var framkvæmd dagana 17. nóvember til 14. desember 2025. Sveitarfélagið safnaði svörum með opnum hlekk sem var dreift meðal annars á heimasíðu Fjarðabyggðar, samfélagsmiðlum, með plakötum, auglýsingu í Dagskránni, auk aðstoðar frá félagi eldri borgara og öldungaráði. Alls svöruðu 211 einstaklingar könnuninni.
Þátttaka var jöfn milli kynja, 49% karlar og 51% konur.
Flestir í sérbýli og margir búið lengi í sama húsnæði
Í niðurstöðum kemur fram að 85% svarenda búa í einbýli, rað- eða parhúsi og 15% í fjölbýli. Þá hafa 42% búið í sama húsnæði í 30 ár eða lengur og meðalfjöldi ára í núverandi húsnæði er 21 ár.
Almenn ánægja, en viðhald og stærð ástæða þeirra sem eru óánægð
Spurt var um ánægju með núverandi húsnæði og sögðust 42% vera fullkomlega ánægð, 51% ánægð og 7% hvorki né/óánægð. Þegar spurt var um helstu ástæður óánægju (hjá þeim sem ekki eru ánægðir) nefndu 62% að húsnæðið krefðist mikils viðhalds og 54% að það væri of stórt.
Flutningar næstu fimm ár: um þriðjungur telur það líklegt
Um 34% telja líklegt að þau muni flytja í annað húsnæði á næstu fimm árum (15% hvorki né, 51% ólíklegt). Þau sem sögðust líkleg til að flytja voru spurð um helstu ástæðu: 46% vilja komast í minna húsnæði og 37% vilja komast í íbúð með möguleika á þjónustu.
Á fundinum var jafnframt farið yfir hvaða þættir skipta fólk mestu máli við val á húsnæði. Þar voru efstir meðal svarenda svalir eða pallur (66%), útsýni (59%) og næg bílastæði (52%).
