Fara í efni
14.10.2025

Þemadagar í Eskifjarðarskóla – Eskifjörður og Ísland í öndvegi

Deildu

Dagana 9. og 10. október fóru fram líflegir og fjölbreyttir þemadagar í Eskifjarðarskóla. Að þessu sinni var þemað Eskifjörður og Ísland, og voru dagarnir bæði fræðandi og skemmtilegir. Samkvæmt frétt frá Eskifjarðarskóla var markmið daganna að efla tengsl nemenda við heimabyggðina, styrkja vitund þeirra um íslenska menningu og náttúru, og skapa tækifæri til skapandi vinnu.
 

Nemendur að spila olsen olsen

Báða dagana hófst dagskráin á sameiginlegri söngstund þar sem sungin voru íslensk þjóðlög og lög sem tengjast Eskifirði. Að sögn skólastjóra skapaði söngurinn góða stemningu og samkennd innan skólans og lagði fallegan tón fyrir daginn.
Nemendur á öllum stigum tóku þátt í fjölbreyttum verkefnum sem tengdust firðinum, landinu og þjóðinni. Á yngsta stigi var Ísland í brennidepli og lærðu nemendur meðal annars um þjóðfánann, landvættina, þjóðarblómið og þjóðsönginn. Á miðstigi voru haldnar fjölbreyttar smiðjur sem tengdust bæði landinu og heimabyggðinni, þar sem nemendur fengu að láta sköpunarkraftinn njóta sín. Á elsta stigi var sjónum beint að sögu og einkennum Eskifjarðar, og unnið með efni sem varpar ljósi á uppruna og menningu staðarins.
Þemadögunum lauk á glaðlegum nótum þegar eldri og yngri nemendur komu saman til að spila hinn sívinsæla Olsen Olsen. Sú hefð hefur fest sig í sessi í Eskifjarðarskóla og markar jafnan skemmtilegan og samheldinn endapunkt á uppbrotsdögum.
„Þemadagar af þessu tagi styrkja samkennd og áhuga nemenda á eigin samfélagi og menningu,“ segir í tilkynningu frá skólanum. „Við erum afar stolt af nemendum okkar og starfsfólki fyrir frábæra þátttöku, gleði og jákvæðni þessa daga.“

Hægt er að sjá myndir frá þemadögunum hér.