Skipverji súralsskipsins sem fluttur var á Landspítala 28. mars sl. er þar enn og líðan hans stöðug. Vel er fylgst með ástandi allra skipverja um borð af hálfu Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Enginn telst alvarlega veikur. Þeir skipverjar er ekki greindust með COVID við komu skipsins 20. mars síðastliðinn voru skimaðir í gær þriðja sinnið. Allir voru þeir neikvæðir líkt og við fyrri skimanir. Varnir sem upp hafa verið settar um borð milli smitaðra og ósmitaðra halda því enn sem komið er og munu vonandi gera þar til skipverjar geta haldið til hafs á ný.
Bólusetningarverkefnið gengur vel. Samkvæmt tölulegum upplýsingum af covid.is eru 6,53% íbúa Austurlands full bólusettir og bólusetning hafin hjá 5,95% íbúa. Það eru rúm 12% íbúa fjórðungsins. Bólusetningum í þessari viku er lokið og í vikunni eftir páska er gert ráð fyrir bólusetningu rúmlega 250 manns.