Fara í efni
13.12.2021 Fréttir

Tilkynning frá aðgerðastjórn á Austurlandi 13. desember

Deildu

Talsvert hefur reynt á íbúa Austurlands síðustu daga vegna fjölgunar smita. Þeim fer nú fækkandi sem greinast utan sóttkvíar og er vísbending um að við erum á réttri leið. Góð viðbrögð íbúa, fyrirtækja og félagasamtaka við að takast saman á við þennan vágest eru lykillinn að því að hefta útbreiðslu. Þau hafa verið til fyrirmyndar og fyrir það þakkað.

Smit eru þó enn dreifð og staðan viðkvæm. Ef við finnum til einkenna, þó þau virðist lítilvæg, skiptir því miklu að fara í PCR sýnatöku og halda sig heima meðan beðið er eftir niðurstöðu. Þá er mikilvægt sem fyrr að huga að hinu margkveðna, að sinna vel persónubundnum sóttvörnum, nota grímu og handspritt og fara varlega í fjölmenni.

Helstu einkenni smits eru hósti, hiti, hálssærindi, kvefeinkenni, andþyngsli, bein- og vöðvaverkir, þreyta, kviðverkir, niðurgangur og uppköst, tap á lyktar- og bragðsskyni og höfuðverkur. Nýtum okkur þessa vitneskju og förum óhikað í sýnatöku ef einhver þessara einkenna gera vart við sig.

Förum varlega.