Fara í efni
23.11.2020 Fréttir

Tilkynning frá aðgerðastjórn á Austurlandi 23. nóvember

Deildu

Líkur á að smit hafi borist áfram minnka nú með hverjum deginum jafnvel þó uppruni sé óþekktur. Upprunann kann að mega rekja til einstaklings sem fann aðeins fyrir vægum einkennum, leitaði sér ekki aðstoðar á heilbrigðisþjónustu og er nú orðinn frískur að nýju. Það er ein skýring en staðreyndin einfaldlega sú að ekki tekst að rekja öll smit. Sú er raunin að þessu sinni.

Í ljósi aðstæðna hvetur aðgerðastjórn íbúa til að gæta sérstaklega að sér næstu vikuna eða svo en þá eru tvær vikur liðnar frá því smit uppgötvaðist og mesta smithættan liðin hjá.

Þá áréttar hún mikilvægi þess að ef við höfum sýkingareinkenni t.d.; kvef, hita, hálssærindi, beinverki, skert bragð- eða lyktarskin, niðurgang og uppköst, að halda sig þá heima og vera í sambandi við heilsugæsluna eða síma 1700 og fá ráðgjöf. Þetta á einnig við ef einkenni eru væg. Síðast en ekki síst að fara ALLS EKKI á heilsugæslustöð, til tannlæknis, í búð, í klippingu o.s.frv. við slíkar aðstæður.

Með samstilltu átaki og aðgæslu sem fyrr komumst við í gegnum þetta kóf.