11. desember síðastliðinn fór fram úthlutunarathöfn Uppbyggingarsjóðs Austurlands fyrir verkefnaárið 2026 í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði. Athöfnin var vel sótt og voru úthlutaðir styrkir til fjölda verkefna víðs vegar af Austurlandi. Til úthlutunar voru samtals 59,3 milljónir króna, sem skiptast á milli 57 verkefna.
Samtals hlutu 15 verkefni í Fjarðabyggð styrk úr sjóðnum að þessu sinni, að upphæð rúmlega 18 milljónir króna. Meðal verkefna sem voru í hópi hæstu styrkþega eru Sköpunarmiðstöðin, Sinfóníuhljómsveit Austurlands og Ævintýraleg vetrarferð til Mjóafjarðar, sem samanlagt hlutu um 6,5 milljónir króna.

Fjarðabyggð fagnar sérstaklega þeim verkefnum sem tengjast sveitarfélaginu og styrkja menningarlíf, nýsköpun og skapandi þátttöku – ekki síst meðal barna og ungmenna.
Upptakturinn á Austurlandi – ungt tónskáldafólk fær vettvang
Styrkur fékkst til verkefnisins Upptaktsins á Austurlandi, þar sem ungmenni í 5.–10. bekk fá tækifæri til að senda inn tónsmíð og vinna úr hugmyndum sínum undir leiðsögn starfandi listamanna í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði. Verkefnið er heil helgi af tónlist, sköpun og menningu – og eitt verk helgarinnar fær síðan tækifæri til þátttöku í Upptaktinum í Reykjavík. Þar fá ung tónskáld leiðsögn nemenda úr Listaháskóla Íslands við útsetningu verka sinna og eru verkin frumflutt af atvinnuhljóðfæraleikurum í Hörpu á Barnamenningarhátíð í Reykjavík að vori.
Innsævi 2026 – fjórða útgáfa listahátíðar í Fjarðabyggð
Innsævi 2026 verður fjórða útgáfa tvíæringsins og listahátíðarinnar í Fjarðabyggð og er umfangsmikið menningarverkefni á vegum Menningarstofu Fjarðabyggðar. Hátíðin fer fram frá maí til ágúst 2026 og hefur það markmið að styrkja tengsl samfélagsins um allt Austurland með samvinnu, sköpun og virkri þátttöku. Með því að sameina íbúa, stofnanir og gestalistamenn verður hátíðin vettvangur fyrir listræna nýsköpun og samfélagslega þátttöku sem endurspeglar félagslega og landfræðilega fjölbreytni svæðisins.
Rithöfundalestin – samstarf um bókmenntir og samtal
Rithöfundalestin hlaut einnig styrk. Hún er samstarfsverkefni Skriðuklausturs, Skaftfells, Menningarstofu Fjarðabyggðar, Múlaþings og Vopnafjarðarhrepps og felst í árlegri upplestrarferð rithöfunda um Austurland. Í ár bættist Breiðdalsvík við og var því lesið upp á sex stöðum. Markmiðið er að kynna nýjar bækur og skapa vettvang fyrir samtal og tengsl milli austfirskra höfunda og skálda af höfuðborgarsvæðinu.

Um úthlutunina í heild
Alls bárust 97 umsóknir í sjóðinn að þessu sinni, samtals að fjárhæð 173,1 milljón króna. Umsóknir skiptust þannig að 33 voru á sviði atvinnu og nýsköpunar, 60 á sviði menningar og 4 um stofn- og rekstrarstyrki. Heildarkostnaður þeirra verkefna sem sótt var um styrk til nam um 555 milljónum króna, sem endurspeglar metnað og kraft í samfélaginu á Austurlandi.


Af úthlutuðum styrkjum fóru 26,8 milljónir króna til 20 atvinnu- og nýsköpunarverkefna, 27 milljónir króna til 34 menningarverkefna og 5,5 milljónir króna til þriggja stofn- og rekstrarstyrkja. Um 59% umsókna hlutu styrk, sem er hærra hlutfall en árið áður.
Á athöfninni ávarpaði menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, Logi Einarsson, gesti og lagði áherslu á mikilvægi menningar og nýsköpunar fyrir byggðaþróun og lífsgæði um land allt. Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður úthlutunarnefndar, gerði einnig grein fyrir áherslum fagráða, meðal annars um dreifingu verkefna um landshlutann og stuðning við nýliðun, ungt fólk og verkefni fyrir börn og ungmenni.
Fjarðabyggð óskar styrkhöfum innilega til hamingju með úthlutunina.
