Fara í efni
28.01.2026 Fréttir, Menning

Upptakturinn á Austurlandi

Deildu

Nú fer senn að líða að Upptaktinum á Austurlandi 2026. Í fyrra var met þátttaka hjá ungmennum á Austurlandi og vonumst við til þess að endurtaka leikinn í ár!

Hrafnkell og Steinunn                   Mynd: Sunna Ben

 

Um er að ræða gjaldfrjálsa tónlistarsmiðju um helgina 7. – 8. febrúar í Stúdíó Síló í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði fyrir ungmenni í 5. – 10. bekk. Eitt lag frá helginni verður valið og sent inn til þátttöku í Upptaktinum í Reykjavík. Nóg er að senda inn hugmynd að lagi, lagstúf, textabrot eða demo. Umsóknarfrestur er til og með 1. febrúar.

 

Leiðbeinendur okkar í ár verða Jón Hilmar Kárason, Steinunn Jónsdóttir og Hrafnkell Örn Guðjónsson.

 

Steinunn Jónsdóttir stundaði nám í klassískum söng og víóluleik á sínum yngri árum. Hún hefur starfað sem tónlistarkona og danskennari frá árinu 2011. Steinunn er meðlimur í Reykjavíkurdætrum og einn af forsprökkum hljómsveitarinnar Amabadama. Hún hefur mikla reynslu af því að vinna með börnum og því að kenna bæði framkomu og textasmíð.

 

Jón Hilmar Kárason                                                            

Hrafnkell Örn Guðjónsson hefur getið sér gott orð sem trommari og þá helst með hljómsveit sinni Agent Fresco. Hann hefur þó komið víða við og spilað með mörgum tónlistarmönnum, má þá nefna rapparann Emmsjé Gauta. Hrafnkell hefur undanfarið verið að kenna í Fellaskóla með Steinunni en þar hafa þau verið með smiðjur í takti, textum og lagasmíði.

 

Jón Hilmar hefur verið leiðbeinandi árlega frá upphafi. Jón Hilmar er frumkvöðull á sviði tónlistarkennslu á netinu og tónlistarmaður með marga bolta á lofti. Hann hefur í gegnum árin skipulagt tónlistarhátíðir, haldið fyrirlestra og námskeið, framleitt sjónvarpsþætti og spilað með mörgum þekktustu tónlistarmönnum landsins. Hann stofnaði Hljómsveitarnámskeið Austurlands sem var vettvangur fyrir ungt tónlistarfólk.

Fyrir umsóknir eða frekari upplýsingar má senda tölvupóst á menningarstofa@fjardabyggd.is