Fara í efni
26.09.2025

Vel heppnaður fundur með Rarik

Deildu

Stjórn og framkvæmdastjórn Rarik heimsótti Fjarðabyggð og Austurland dagana 22.-24. september síðastliðin. Tilgangur ferðarinnar var að kynna betur starfsemi félagsins og þau fjölbreyttu verkefni í landshlutanum og treysta samstarf og samskipti við sveitarstjórnir og stóra viðskiptavini á svæðinu.  

Ferðin hófst á Höfn í Hornafirði og síðan lá leiðin á Reyðarfjörð, Norðfjörð, Neskaupsstað, Eskifjörð, Egilsstaði og Vopnafjörð og endaði loks á Þórshöfn. Fundir voru haldnir með fulltrúum sveitarstjórnar Hornafjarðar, Fjarðabyggðar, Múlaþings, Vopnafjarðar og Langanesbyggðar auk þess sem kúabúið Flatey, Síldarvinnslan í Neskaupsstað og Ísfélagið á Þórshöfn voru heimsótt. Farnar voru skoðunarferðir í hitaveituna í Hoffelli, aðveitustöðina við Teigarhorn og Lagarfossvirkjun Orkusölunnar.

Árlega er einn landshluti heimsóttur í senn af stjórn og framkvæmdastjórn Rariks. Með þessum heimsóknum er tryggt að fulltrúar sveitarfélaga og viðskiptavina um allt land fái tækifæri til að koma á framfæri sínum sjónarmiðum og ábendingum um orkudreifingu og orkuskipti. Jafnframt gefst tækifæri til að kynna starfsemi Rariks nánar, ræða verkefni fyrirtækisins og stöðu dreifikerfisins.

Hlutverk fyrirtækisins og ábyrgð þess þegar kemur að uppbyggingu og orkuskiptum á landsbyggðinni er mjög umfangsmikið og er tekið alvarlega. Mikilvægt er að viðhalda góðum samskiptum og samstarfi við sveitarstjórnir og fyrirtæki á dreifisvæðinu og veita framúrskarandi þjónustu. Því skipta heimsóknir og fundir af þessu tagi miklu máli.

Frétt birtist á vef Rarik