Fara í efni
07.10.2021 Fréttir

Vel heppnaður íbúafundur á Reyðarfirði um grænan orkugarð

Deildu

Á fundinum voru sérfræðingar frá Landsvirkjun með stuttar kynningar á því hvað felst í hugtakinu grænn orkugarður, þeir fjölluðu um hvað rafeldsneyti er og það verkefni sem hugmyndir eru uppi um á Reyðarfirði.

Jón Björn Hákonarson bæjarstjóri Fjarðabyggðar opnaði fundinn og bauð fólk velkomið. Hann fór yfir tilurð fundarins og lagði í máli sínu áherslu á hve spennandi verkefni væri um að ræða fyrir samfélagið í Fjarðabyggð. Á eftir honum kynnti Laufey Lilja Ágústsdóttir, sérfræðingur um grænan rekstur hjá Landsvirkjun, hugtakið grænn orkugarður, hvað í honum felst og þau stóru verkefni sem framundan eru varðandi orkuskipti.

Þar á eftir fór Egill Tómasson, nýsköpunarstjóri hjá Landsvirkjun, yfir hvað rafeldsneyti er og hvernig það mun nýtast við þau orkuskipti sem framundan eru á Íslandi og í heiminum öllum. Að lokum fjallaði Haraldur Hallgrímsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun, í stuttu máli um þær hugmyndir sem uppi eru um verkefni tengt grænum orkugarði og framleiðslu rafeldsneytis á Reyðarfirði.

Að loknum erindum var gestum boðið að eiga létt spjall við framsögumenn og bæjarfulltrúa Fjarðabyggðar. Þar sköpuðust líflegar umræður og greinilegt að mikill áhugi er meðal íbúa á þessu verkefni. Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, var ánægður með fundinn þegar honum lauk, og bjartsýnn á framhaldið "Ég er afar ánægður með þann fjölda sem mætti hér í kvöld til að kynna sér þetta verkefni. Bæjarstjórn Fjarðabyggðar, líkt og samfélagið allt, hefur alltaf tekið vel í nýjar hugmyndir varðandi atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Verkefnið um grænan orkugarð og framleiðslu rafeldsneytis á Reyðarfirði getur skapað fjölda nýrra og fjölbreyttra atvinnutækifæra. Tækifærin sem fylgja þessu eru fjölmörg og það er okkar að grípa þau."

Nánari umfjöllun um fundinn má finna á vef Austurfréttar með því að smella hér.

Ljósmyndir með frétt: Austurfrétt/Gunnar Gunnarsson