Fara í efni
03.10.2022 Fréttir

Sterkur Stöðvarfjörður - Íbúafundur

Deildu

Í verkefnisáætlun Sterks Stöðvarfjarðar er framtíðarsýn íbúa sett fram um byggðarlagið ásamt fjórum meginmarkmiðum og starfsmarkmiðum þeim tengdum. Meginmarkmið verkefnisins eru eftirfarandi:

  • Fyrirmyndar umhverfi
  • Samheldið samfélag
  • Öflugt atvinnulíf
  • Sterkir innviðir

Kristján Þ. Halldórsson, formaður verkefnisstjórnar og fulltrúi Byggðastofnunar, setti fundinn og bauð fundargesti velkomna til fundar. Hann hvatti íbúa til virkrar þátttöku í verkefninu og óskaði eftir frjóum umræðum um verkefnisáætlunina og málefni byggðarlagsins. Valborg Ösp kynnti því næst drög að verkefnisáætluninni og útskýrði vinnulag umræðuhópa á fundinum. Íbúum var skipt í fjóra hópa og hver þeirra rýndi meginmarkmiðin nánar og þau starfsmarkmið sem þeim tengdust. Í lok fundar höfðu allir þátttakendur haft tækifæri til að setja fram ábendingar/athugasemdir við öll markmiðin sem birtast í verkefnisáætluninni, meginmarkmið jafnt sem starfsmarkmið. Þá skrifuðu íbúar sig á lista yfir áhugasama aðila um framgang einstakra markmiða eftir því sem áhugi hvers og eins bauð. Þessir hópar eru mikilvægir fyrir verkefnisstjóra til skrafs og ráðagerða í framhaldinu.

Eftir góðan kaffisopa í lok fundar var öllum fundargestum safnað á sal til umræðu um verkefnisáætlunina. Fundargestir veittu verkefnisstjórninni umboð til að ljúka formlega við verkefnisáætlun Sterks Stöðvarfjarðar á grunni þeirra athugasemda sem fram komu í umræðuhópunum. Verkefnisáætlunin erlifandi skjal sem á eftir að taka breytingum eftir því sem verkefninu mun vinda fram. Gert er ráð fyrir því að íbúar rýni verkefnisáætlunina einu sinni á ári á íbúafundi og þá munu e.t.v. ný starfsmarkmið bætast við eða önnur taka breytingum eftir atvikum.