mobile navigation trigger mobile search trigger
27.06.2024

Aldarafmæli Jósafats Hinriksson

Þann 21. júní síðastliðinn voru 100 ár liðin frá fæðingu Jósafats Hinrikssonar. Af því tilefni var haldinn viðburður í Safnahúsinu á Norðfirði. Ólöf Þóranna Hannesdóttir, dótturdóttir Jósafats og Ólafar konu hans, sagði frá Jósafat og safninu hans. Jón Björn Hákonarson tók svo við og fór yfir aðdraganda þess er Fjarðabyggð tók við safninu á sínum tíma, m.a. að það hefði komið á óvart hversu mikið magn muna tilheyrðu safninu. 

Aldarafmæli Jósafats Hinriksson
Ólöf Þóranna Hannesdóttir, barnabarn Jósafats og Ólöfar konu hans.

Jósafat var tveggja ára þegar fjölskylda hans flutti til Neskaupstaðar. Hann lærði vélvirkjun á Vélaverkstæði Dráttarbrautarinnar í Neskaupstað og fór svo í Vélskólann í Reykjavík. Hann vann á ýmsum bátum og  skipum í gegnum tíðina en árið 1953 bauð Tryggvi Ófeigsson honum að fara einn veiðitúr sem vélstjóri á Neptúnusi sem var gerður út frá Reykjavík. Hann var svo beðinn um að starfa áfram sem vélstjóri á skipinu og því ákváðu þau hjónin að flytja til Reykjavíkur.

Jósafat var á sjó um margra ára skeið en ákvað svo að fara í framleiðslu. Í upphafi smíðaði hann blakkir, dekkrúllur og fleira. Smíðin fór fram í bílskúr við heimili hans. Hann keypti húsnæði fyrir framleiðsluna í Skúlatúni en færði sig svo yfir í Súðarvog  þar sem hann reisti verksmiðju-byggingu. Hann stofnaði fyrirtæki sitt, J. Hinriksson vélaverkstæði, þar sem hann hannaði og framleiddi toghlera, ásamt fleiru fyrir fiskveiðar.

Hann hafði alltaf áhuga á að safna munum sem tengdust sjósókn og vélsmiðjum. Smám saman fjölgaði þessum munum og árið 1973 fékk hann þá hugmynd að opna sjóminja- og smiðjumunasafn. Upphaflega var safnið hugsað sem safn fyrir hann sjálfan og hans nánustu sem áhugamál. Um tíu árum seinna útbjó hann safnið á efri hæð í verksmiðjuhúsnæði sínu. Í kjölfarið opnaði hann safnið fyrir almenning. Jens bróðir hans vann þar sem safnvörður og auk þess komu margir að verkefnnu þar, bæði starfsfólk og fjölskylda.

Jósafat þótti alltaf vænt um sinn heimabæ og hann lagði mikið upp úr því að safna munum frá Neskaupstað og nánasta umhverfi. Sem dæmi má nefna að á safninu má finna þrjá stóra hverfisteina; einn þeirra er frá Hvalstöð Marcusar Bull í Hellisfirði og annar frá Hvalstöð H. Ellefsen úr Mjóafirði austur. Auk þessa má finna fjölmarga aðra muni tengda Neskaupstað og nágrenni sem áhugavert er að skoða.

Eftir andlát Jósafats bauð fjölskyldan Fjarðabyggð að taka við safninu. Því boði var vel tekið og er nú safnið staðsett í Safnahúsinu á Norðfirði, ásamt Náttúrgripasafnið og myndlistasafni Tryggva Ólafssonar. ,,Það er ekki sjálfsagt að sveitarfélög taki við safni sem þessu og erum við fjölskyldan því þakklát. Að mínu mati hefur uppsetning safnsins heppnast sérlega vel og það er mikill styrkur að hafa þessi söfn saman í þessu fallega húsi." Sagði Ólöf Þóranna Hannesdóttir. 

Fleiri myndir:
Aldarafmæli Jósafats Hinriksson
Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar
Aldarafmæli Jósafats Hinriksson
Aldarafmæli Jósafats Hinriksson
Að sjálfsögðu var boðið uppá afmælisköku
Aldarafmæli Jósafats Hinriksson

Frétta og viðburðayfirlit