mobile navigation trigger mobile search trigger
27.07.2015

Franskra sjómanna við Íslandsstrendur minnst

Rósafleyting í minningu þeirra frönsku sjómanna sem farist hafa við Íslandsstrendur fór fram að minningarathöfn lokinni í Franska grafreitnum á Fáskrúðsfirði sl. laugardag.

Franskra sjómanna við Íslandsstrendur minnst
Frá rósafleytingunni í fjörunni fyrir neðan Franska grafreitinn, að minningarathöfninni lokinni.

Að athöfninni standa fulltrúar vinabæjanna Gravelines í Frakklandi og Fjarðabyggð í samstarfi við Franska daga. Viðstaddir voru einnig áhöfn skonnortunnar Belle Poule, sem lá við landfestar á Fáskrúðsfirði um helgina í tilefni af bæjarhátíðinni sem fram fór nú um helgina.

Skipstjóri og sjóliðar stóðu heiðursvörð á meðan athöfninni stóð og sungu þeir í lok hennar franska þjóðsönginn. Ávörpu fluttu Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri og Frédérique Plaisant borgarfulltrúi Gravelines, en athöfnina leiddi Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, sóknarprestur.

Á myndinni hér til hliðar munda eftirtaldir rósir (f.v.) Désirée Decriem, upplýsingafulltrúi Gravelinesborgar, Valdimar O. Hermannsson, bæjarfulltrúi, Frédérique Plaisant, borgarfulltrúi, Jens Garðar Helgason, formaður bæjarráðs, Hervé Coubel, borgarfulltrúi, Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri og Dominique Lagadou, skipstjóri ásamt einum sjóðliða af Belle Poule, sem tóku allir þátt í rósafleytingunni.

Frétta og viðburðayfirlit