mobile navigation trigger mobile search trigger
02.02.2017

Íbúagátt Fjarðabyggðar formlega tekin í notkun

Íbúagátt Fjarðabyggðar opnaði formlega á bæjarstjórnarfundi í dag. Um framfaraskref er að ræða í þjónustu við íbúa. Í gáttinni verður hægt að sjá álagningaseðla fasteignagjalda, gjaldayfirlit gagnvart sveitarfélag og sækja um þjónustu þess.

Íbúagátt Fjarðabyggðar formlega tekin í notkun
Jón Björn kominn á Íbúagáttina

Í þessum fyrsta fasa verður þó ekki boðið upp á eyðublöð sem tengjast fræðslumálum (leik-, grunn- og tónlistarskólum) en þau eru væntanlega innan skamms tíma.

Jón Björn Hákonarson forseti bæjarstjórnar opnaði gáttina með því að fylla út og senda inn fyrstu umsóknina.

Til þess að komast inn á íbúagáttina verður hægt að smella á hlekkinn Íbúagátt efst í hægra horninu á fjardabyggd.is. Þar kemur innskráningarsíða þar sem krafist er þess að annað hvort sé notaður Íslykill eða Rafræn skilríki. Ef menn vilja nálgast Íslykil þá er hægt að panta hann hér og hægt er að fá hann sendan í heimabanka sem tekur 5-10 mínútur.

Rafræn skilríki er hægt að fá í alla snjallsíma svo framarlega sem rétt SIM-kort sé til staðar. Hægt er að prófa hvort rétt SIM-kort sé á ykkar númeri með því að smella hér. Ef rétt SIM-kort er til staðar er hægt að fara til næsta þjónustuaðila rafrænra skilríkja, t.d. í bankaútibú og fá skilríkin.

Þegar inn í gáttina er komið eru allir beðnir um að slá inn netfang áður en lengra er haldið. Einnig er mjög mikilvægt að slá inn farsímanúmer til þess að auðvelda samskipti. Í gáttinni er hægt að fá þær upplýsingar sem taldar voru upp hér að ofan auk umsóknanna. Sérstök athygli er vakin á því að fyrirtæki, félagasamtök og stofnanir verða að sækja um á eigin kennitölu (Íslykli).

Smellt er á umsóknir, rétt umsókn valin, hún fyllt út og síðan send inn. Hún er síðan samþykkt inn í skjalakerfi sveitarfélagsins og verður þar að máli. Íbúar geta séð hverjir bera ábyrgð á málinu, geta sent skilaboð á aðilann og séð hvernig málinu vindur fram. Þegar málinu er lokið kemur afgreiðsla þess inn í gáttina og íbúi fær tölvupóst um að málið sé afgreitt. Þetta er því ekki aðeins bætt þjónusta við íbúa heldur gerir þetta stjórnsýslunna umhverfisvænni þar sem notkun á pappír minnkar töluvert.

Hér eftir verða þessi eyðublöð aðeins rafræn í gegnum íbúagáttina. Hægt er að nálgast þau í gegnum tölvur, spjaldtölvur og snjallsíma. Ef einhverjir geta ekki nálgast eyðublöðin er hægt að komast í tölvu á bæjarskrifstofunni og í þjónustugáttum og fá þar aðstoð við eyðublöðin.

Öll aðstoð varðandi íbúagáttina er veitt á bæjarskrifstofunni og í síma 4709000.

Frétta og viðburðayfirlit