mobile navigation trigger mobile search trigger
16.07.2020

Innsævi - Menningar og listahátíð Fjarðabyggðar 16. júlí - 16. ágúst

Innsævi – Menningar og listahátíð Fjarðabyggðar er haldin nú í fyrsta skipti og er hugmyndin að hátíðin fari fram á hverju ári í kjölfarið.  Á hátíðinni er að finna fjölþætta menningardagskrá þar sem hugmyndin er að allir finni eitthvað við sitt hæfi, bæði íbúar á svæðinu og þeir sem heimsækja Fjarðabyggð í sumar. 

Innsævi - Menningar og listahátíð Fjarðabyggðar 16. júlí - 16. ágúst

Boðið er upp á listasýningar, kvikmyndasýningar, tónlist, nornagöngu, hljóðlistaverk, ljósmynda og myndlistasýningar, gjörningalist, tónleika, viðburði fyrir alla fjölskylduna, og margt fleira.  Hátíðin er á dagskrá í öllum bæjarkjörnum Fjarðabyggðar, frá Mjóafirði suður til Breiðdalsvíkur og dregur myndrænt útlit hátíðarinnar dám af því. 

Á hátíðinni verður boðið upp á verk ungs og upprennandi listafólks á svæðinu, sýnd verða verk sem orðið hafa til í Skapandi sumarstörfum Fjarðabyggðar og Fljótsdalshéraðs, listafólk frá Kling og Bang hópnum setur upp sýningu í Gömlu netagerðinni á Neskaupstað, boðið verður upp á samtímalist í almenningsrými, svo sem í Molanum á Reyðarfirði, í sundlauginni á Stöðvarfirði, og á fleiri stöðum.  Stálsmiðjan fer fram á Neskaupstað en hún er ört stækkandi vettvangur ungs listafólks hvaðanæva að á landinu; og vert er að minnast á sýninguna Æther/Ljósvaki, þar sem silfurberginu í Helgustaðanámu eru gerð skil á listrænan hátt. 

Innsævi tengir saman listir og menningu við svæðið, opnar augu fólks og vekur áhuga á því sem hér er að finna á sama tíma og listafólkið sem kemur fram á hátíðinni hefur svigrúm til að tjá sig á þann hátt sem því þykir best. 

Frekari upplýsingar um dagskrána er að finna á Facebook síðu Innsævis með því að smella hér.

www.facebook.com/menningarstofa

Vert er að geta þess að allir viðburðir á hátíðinni taka mið af tilskipunum og tilmælum yfirvalda varðandi COVID-19.

https://www.covid.is/undirflokkar/hvad-thydir-samkomubann

Sjáumst vonandi sem flest á Innsævi 2020 !!

Ari Allansson,

Forstöðumaður Menningarstofu Fjarðabyggðar.

Frétta og viðburðayfirlit