mobile navigation trigger mobile search trigger
29.05.2017

Karna mun veita Menningarstofu forstöðu

Kristín Arna Sigurðardóttir, eða Karna, hefur verið ráðin til þess að veita Menningarstofu Fjarðabyggðar forstöðu.

Karna mun veita Menningarstofu forstöðu

Karna er menntuð á sviði hönnunar, lauk BDes gráðu í iðnhönnun með áherslu á dramatúrgíu fyrir leikhús og kvikmyndir frá Viktoríuháskóla í Nýja-Sjálandi. Hún hefur þrátt fyrir ungan aldur komið að hönnunar-, kvikmynda-, stefnumótunar- og samfélagsverkefnum víða um heim. Hér innanlands hefur hún komið að verkefnum t.a.m. fyrir Ferðaþjónustu bænda, MAKE hönnunarsamfélag á Austurlandi, grasrótarsamtökin SAM-félagið, Hönnunarmiðstöð Íslands, Áfangastaðinn Austurland, Fljótsdalshérað, Listaháskóla Íslands og Austurbrú.

Hún stofnsetti verkefnið Designs from Nowhere sem gengur út á samstarf ólíkra aðila innan Austurlands og utan sem fæðir af sér nýjar hugmyndir og hönnunarverk. Markmið verkefnisins er að móta kjöraðstæður fyrir sköpun á Austurlandi.

Menningarstofa Fjarðabyggðar mun starfa á klasagrunni í samstarfi sveitarfélagsins, fyrirtækja og félaga innan þess og Tónlistarmiðstöðvar Austurlands. Hún hefur það hlutverk að styðja við menningu og afþreyingu í sveitarfélaginu og stuðla þannig að lífsgæðum íbúa.

Fjarðabyggð óskar Körnu til hamingju með starfið og óskar henni velfarnaðar í störfum sínum.

Karna mun hefja störf í júlí.

Frétta og viðburðayfirlit