mobile navigation trigger mobile search trigger
20.12.2018

Kristín Embla og Ásmundur Hálfdán eru glímufólk ársins

Á dögunum valdi Glímusamband Íslands glímufólk ársins 2018. Það voru þau Kristín Embla Guðjónsdóttir og Ásmundur Hálfdán Ásmundsson, bæði úr Val Reyðarfirði, sem urðu fyrir valinu í ár.

Kristín Embla og Ásmundur Hálfdán eru glímufólk ársins
Ásmundur Hálfdán Ásmundsson og Kristín Embla Guðjónsdóttir við verðlaunaafhendinguna eftir Íslandsglímuna í vor ásamt Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra og Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands.

Ásmundur Hálfdán er 24 ára gamall og hefur stundað glímu í um 16 ár. Ásmundur var mjög sigursæll á árinu en helsta afrek hans var þegar hann sigraði Íslandsglímuna og hlaut þar með Grettisbeltið í þriðja sinn. Ásmundur sigraði öll glímumót sem hann tók þátt í á árinu. Ásmundur hefur verið einn fremsti glímumaður Íslands undanfarin ár. Ásmundur glímir vel og er góð fyrirmynd jafnt innan vallar sem utan.

Kristín Embla er 18 ára gömul og átti góðu gengi að fagna á glímuvellinum árið 2018. Krístín stóð sig vel á öllum glímumótum sem hún tók þátt í á árinu 2018 en helsta afrek hennar var þegar hún sigraði Íslandsglímuna og hlaut þar með Freyjumenið í fyrsta sinn. Kristín keppti einnig á alþjóðlegum mótum í keltneskum fangbrögðum þar sem hún stóð sig vel og var í verðlaunasæti í gouren og backhold á Evrópumóti unglinga í apríl. Kristín er fyrirmyndar íþróttakona jafnt innan vallar sem utan.

Við óskum þeim Kristínu og Ásmundi innilega til hamingju með tilnefningarnar.

Frétta og viðburðayfirlit