mobile navigation trigger mobile search trigger
29.01.2016

Línur lagðar fyrir næsta Eistnaflug

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar og Stefán Magnússon, framkvæmdastjóri Eistnaflugs, undirrituðu í dag samning vegna tónlistarhátíðarinnar sem fram fer í Neskaupstað dagana 6. til 9. júlí nk. Tjaldstæðisgjald leysir þjónustugjald af hólmi.

Línur lagðar fyrir næsta Eistnaflug

Undirritun samstarfssamnings hefur verið árviss atburður og mikilvægur liður í vexti hátíðarinnar og þróun. Á síðasta ári færði Eistnaflug sem kunnugt er út kvíarnar og flutti aðaltónleikasviðið úr Egilsbúð í íþróttahús Norðfjarðar.

Þær breytingar þýddu jafnframt að nýta mátti Egilsbúð fyrir nýja og áhugaverða listamenn og hljómsveitir.

Samningurinn sem undirritaður var í dag byggir á þeim góða grunni sem lagður var í fyrra, með einni undantekningu þó.

Í stað þjónustugjalds sem innheimt var af öllum tónleikagestum er komið tjaldstæðisgjald, sem einungis gestir á hátíðartjaldsvæðinu á Bökkum greiða. Unnt verður að greiða gjaldið samhliða miðakaupum á tix.is sem verður kr. 2.800 ef gengið er frá því fyrir 6. júlí. Eftir þann tíma verður gjaldið allt að kr. 3.500.

Eistnaflugið í sumar verður það 12. í röðinni og er óhætt að segja hátíðin hafi öðlast einstakan sess bæði hér á landi og erlendis.

Hefur það ekki hvað síst verið rakið til þess að Stefán Magnússon hefur frá upphafi lagt skýrar línur í hljómsveitarvali, staðsetningu hátíðarinnar og framkomu hátíðargesta, en eins og fleygt er orðið er bannað að vera fáviti á Eistnaflugi.

Dagskrá Eistnaflugs 2016 er jafnframt óðum að skýrast og verða þar engir aukvisar ferð eins og sjá má af vef tónlistarhátíðarinnar eistnaflug.is.

Fleiri myndir:
Línur lagðar fyrir næsta Eistnaflug
Línur lagðar fyrir næsta Eistnaflug

Frétta og viðburðayfirlit