mobile navigation trigger mobile search trigger
02.01.2016

María Rún Karlsdóttir er Íþróttamaður Fjarðabyggðar 2015

Íþróttamaður Fjarðabyggðar var valinn við hátíðlega athöfn í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði þriðjudaginn 29. desember.

Fyrir valinu varð María Rún Karlsdóttir Íþróttafélaginu Þrótti Neskaupstað.  

María Rún Karlsdóttir er Íþróttamaður Fjarðabyggðar 2015
Myndin var tekin þegar María var valin íþróttamaður Þróttar. Hún er stödd erlendis með A-landsliðinu í blaki.

María Rún var á dögunum kosin íþróttamaður Þróttar 2015 en hún er fyrirliði meistaraflokksliðs Þróttar í blaki og var langstigahæst allra leikmanna Þróttar á árinu. Hið unga lið Þróttar óx jafnt og þétt yfir leiktímabilið 2014-2015 með Maríu Rún í broddi fylkingar.  María Rún var valin efnilegasti leikmaður Mizuno deildarinnar fyrir leiktímabilið 2014-2015 auk þess sem hún var einnig stigahæst í sókn og stigahæst allra leikmanna í deildinni.

María Rún spilaði fyrir Íslands hönd bæði með U19 í Danmörku og U17 í Englandi á Norðurlandamótum í október. María var í byrjunarliði í flest öllum leikjum á mótunum. Hún var ein af burðarásum U17 ára liðins sem náði öðru sæti á mótinu og var það besti árangur Íslendinga til þessa á þessu móti. Hún spilaði sinn fyrsta A landsleik á æfingamóti á Ítalíu um páskana. Búið er að velja Maríu Rún í lokahóp A landsliðskvenna sem fer út til Lúxemborgar 29. desember og keppir á NOVOTEL CUP 2016 1. - 3. janúar.

Í umsögn frá Íþróttafélaginu Þrótti sem fylgdi tilnefningunni segir:

María Rún hefur þrátt fyrir ungan aldur náð frábærum árangri á landsvísu í blaki.  Hún hefur verið í unglingaliðum Íslands frá 14 ára aldri. María Rún er metnaðarfullur og vinnusamur íþróttamaður. Þó að María sé búin að ná góðum árangri þá stefnir hún hærra og leggur mikla vinnu á sig til að ná markmiðum sínum.“

Aðrir sem tilnefndir voru til íþróttamanns Fjarðabyggðar 2015:

Björgvin Hólm Birgisson – brettamaður, Brettafélagi Fjarðabyggðar

Björgvin Stefán Pétursson – knattspyrnumaður, Leikni

Dýrunn Elín Jósefsdóttir – frjálsum íþróttum og knattspyrnu, Súlunni

Elísabet Líf Theodórsdóttir - hestamaður, Blæ

Eva Dögg Jóhannsdóttir – glímukona, Val

Gígja Guðnadóttir – blakkona, Leikni og Þrótti

Halldóra Birta Sigfúsdóttir – skíðakona, Skíðafélagi Fjarðabyggðar og Val

María Rún Karlsdóttir – blakkona, Þrótti

Sunneva María Pétursdóttir – sundkona, Austra

Telma Ívarsdóttir – knattspyrnukona, Þrótti

Auk þess að heiðra ofantalda voru veittar viðurkenningar til þeirra einstaklinga sem hafa tekið þátt í landsliðsverkefnum á árinu.

Við óskum Maríu og öðrum afreksíþróttamönnum í Fjarðabyggð til hamingju með viðurkenningarnar og óskum þeim velfarnaðar á nýju ári. 

Fleiri myndir:
María Rún Karlsdóttir er Íþróttamaður Fjarðabyggðar 2015
Bæjarstjóri, formaður íþrótta- og tómstundanefndar ásamt tilnefndum einstaklingum auk fulltrúa þeirra sem tilnefndir voru til Íþróttamanns Fjarðabyggðar
María Rún Karlsdóttir er Íþróttamaður Fjarðabyggðar 2015
Foreldrar Maríu Rúnar tóku við viðurkenningu fyrir hennar hönd en hún er stödd erlendis með A-landsliðinu í blaki.
María Rún Karlsdóttir er Íþróttamaður Fjarðabyggðar 2015
Þeir eintaklingar sem fengu viðurkenningu fyrir að hafa verið í úrtakshópum fyrir landsliðssæti á árinu.

Frétta og viðburðayfirlit