mobile navigation trigger mobile search trigger
15.12.2015

Minningarreitur vígður í Neskaupstað

Minningarreitur vegna snjóflóðanna í Neskaupstað verður vígður föstudaginn 18. desember kl. 18:00. Að athöfn lokinni verður heitt kakó á boðstólum í Mána.

Minningarreitur vígður í Neskaupstað
Skissa af minnisvarðanum sem prýðir minningarreitinn í Neskaupstað. Hönnuður er Robyn Vilhjálmsson, Listasmiðju Norðfjarðar.

Minningarreiturinn er staðsettur innan við þéttbýlið, á þeim slóðum er Mánahús stóð áður og er helgaður minningu þeirra sem farist hafa í snjóflóðum í Neskaupstað.

Reitinn prýðir fallegur minnisvarði úr járni og íslenskum steini, hannaður af Robyn Vilhjálmsson, listakonu í Listasmiðju Norðfjarðar og smíðaður af Beate Stormo, eldsmið á Akureyri. Minningarreiturinn hefur verið gerður samhliða uppbyggingu snjóflóðavarnarmannvirkja ofan Urðarteigs og Hlíðargötu.

Minnisvarðinn sýnir 17 bláklukkur í skál, sem tákna þau sautján mannslíf sem snjóflóð hafa tekið í Neskaupstað. Þar hafa í þrígang fallið mannskæð flóð eða á árunum 1885, 1974 og 1978. Mannskæðustu flóðin féllu árið 1974, en þá týndu 12 manns lífi.

Að athöfninni koma Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri og sr. Sigurður Rúnar Ragnarsson sóknarprestur. Fulltrúar æskunnar leggja logandi kerti við minnisvarðann og björgunarsveitin Gerpir stendur heiðursvörð. Um tónlistarflutning sér karlakórinn Ármenn.

Að athöfn lokinni er gestum boðið að þiggja veitingar í Mána, sem er skemma skammt frá minningarreitnum.

Frétta og viðburðayfirlit