mobile navigation trigger mobile search trigger
26.11.2020

Myndband af hönnun og útliti á nýju íþróttahúsi á Reyðarfirði

Frá því í vor hefur staðið yfir undirbúningur að byggingu á nýju íþróttahúsi á Reyðarfirði. Nú er hönnun hússins lokið og gert er ráð fyrir að framkvæmdir við það hefjist fljótlega á nýju ári.

Myndband af hönnun og útliti á nýju íþróttahúsi á Reyðarfirði
Einhvernvegin svona mun nýtt Íþróttahús á Reyðarfirði líta út.

Í desember 2019 var sú ákvörðun tekinn að selja Rafveitu Reyðarfjarðar. Fyrir lá af hálfu bæjarstjórnar að hagnaður af sölunni færi óskiptur til uppbyggingar innviða á Reyðafirði. Að höfðu samráði við íbúa var ákveðið að fjármununum, um 410 milljónum, skildi varið til uppbyggingar á nýju íþróttahúsi á Reyðarfirði.

Á vordögum var síðan settur saman starfshópur um nýtt íþróttahús á Reyðarfirði. Í hópnum áttu sæti fulltrúar Íbúasamtakanna á Reyðarfirði, ungmennafélagsins Vals, formenn íþrótta- og tómstundanefndar, eigna- skipulags-, og umhverfisnefndar, ásamt tveim bæjarráðsmönnum auk nokkurra embættismanna.

Hópurinn fundaði nokkrum sinnum frá því í apríl til nóvember og ræddi um staðsetningu, skipulagsmál og tegund þess húsnæðis sem reisa ætti. Ákveðið var að húsið skyldi reist á svæðinu við núverandi íþróttahús á Reyðarfirði, en þannig nýtist búningsaðstaða  sem fyrir er í íþróttamannvirkjum á Reyðarfirði. Leitað var til Verkfræðistofunnar Mannvits vegna hönnunar hússins og efnisvals.

Jarðvegsvinna á svæðinu hófst síðan í sumar, en lögð var áhersla á að ljúka henni áður en skóli yrði settur í haust. Á meðan vann Mannvit að loka hönnun byggingarinnar, í samvinnu við starfshópinn og liggur hún nú fyrir. Um er að ræða límtréshús sem er um 1500 m2. auk þess sem gert er ráð fyrir tengibyggingu við núverandi íþróttahús sem er rúmlega 200 m2. Hönnun og útlit hússins má sjá á skemmtilegu myndbandi sem finna má á Youtube síðu Fjarðabyggðar með því að smella hér.

Nú hefur verið auglýst útboð á uppsteypu og grunnlögnum hússins, og gert er ráð fyrir að þeim verkþætti verði lokið í mars 2021 þannig að hægt verði að hefja vinnu við að reisa húsið sjálft. Gert er ráð fyrir að íþróttahúsið verði komið í notkun á haustmánuðum 2021 en frágangur við tengibyggingu að innan verði unnin síðan í kjölfarið

Frétta og viðburðayfirlit