mobile navigation trigger mobile search trigger
11.08.2015

Nýir starfsmenn á bæjarskrifstofu Fjarðabyggðar

Bergey Stefánsdóttir, Stefán Ingvar Stefánsson, Helga Elísabet Guðlaugsdóttir, Ólöf Vilbergsdóttir og Páll Baldursson tóku nýlega til starfa á bæjarskrifstofu Fjarðabyggðar. Bergey og Helga Elísabet starfa á fjölskyldusviði, Stefán Ingvar á fjármálasviði en Páll og Ólöf eru á framkvæmdasviði.

Nýir starfsmenn á bæjarskrifstofu Fjarðabyggðar
Nýir starfsmenn á bæjarskrifstofu Fjarðabyggðar, f.v. Bergey, Stefán Ingvar, Helga Elísabet, Ólöf og Páll.

Bergey starfar sem ráðgjafi á fjölskyldusviði Fjarðabyggðar og leysir af, til eins árs, þær Sigríði Ingu Björnsdóttur og Hrafnhildi Ragnarsdóttur, sem báðar eru í barnsburðarleyfi.  Bergey hefur lokið BA gráðu í félagsráðgjöf og sinnir almennri félagslegri ráðgjöf, umsjón með daggæslu barna í heimahúsum og barnavernd.

Stefán Ingvar sinnir m.a. fjárhagskerfi Fjarðabyggðar, kostnaðareftirliti og greiningarvinnu á fjármálasviði. Hann leysir jafnframt af aðalbókara og innheimtufulltrúa, en Stefán er margreyndur skrifstofumaður, vann síðast hjá Alcoa – Fjarðaráli á innkaupasviði. Stefán var ráðinn til bæjarskrifstofunnar samhliða því að Berglind Þorbergsdóttir, aðalbókari, hvarf til annarra starfa sl. vor. Hefur Bea Meijer tekið við sem aðalbókari Fjarðabyggðar.

Helga Elísabet er deildarstjóri búsetuþjónustu og tekur hún við af Helgu Eyjólfsdóttur, sem lét af störfum hjá Fjarðabyggð á síðasta ári. Helga Elísabet er þroskaþjálfi að mennt með diplóma í opinberri stjórnsýslu og starfaði áður sem yfirþroskaþjálfi hjá Grandaskóla í Reykjavík.

Ólöf Vilbergsdóttir er verkefnastjóri umhverfismála. Um nýtt starf er að ræða hjá Fjarðabyggð, sem helgað er umhverfis-, sorp- og endurvinnslumálum og kemur í stað stöðugildis sem Unnur Ása Atladóttir gegndi fram til ársins 2013. Ólöf er með meistarapróf í umhverfisstjórnun, en áður starfaði hún hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. Ólöf tekur einnig að hluta til við verkefnum sem Anna Katrín Svavarsdóttir hafði sem umhverfisfulltrúi umsjón með, en Anna Katrín lét nýverið af störfum hjá sveitarfélaginu.

Páll Baldursson er verkefnisstjóri með tímabundna ráðningu fram að næstu áramótum og sinnir hann almenningssamgöngum ásamt öðrum verkefnum á framkvæmdasviði. Páll, sem er sagnfræðingur að mennt, er að góðu kunnur í sveitarstjórnarmálum en hann var til skamms tíma sveitarstjóri Breiðdalshrepps. Eins og Ólöf, tekur Páll einnig við verkefnum sem áður heyrðu undir umhverfisfulltrúa.

Um leið og ofangreindir starfsmenn eru boðnir velkomnir til starfa er þeim starfsmönnum sem létu af störfum, þökkuð góð störf í þágu sveitarfélagsins.

Frétta og viðburðayfirlit