mobile navigation trigger mobile search trigger
16.03.2017

Sköpunarmiðstöðin í miklum blóma

Í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði er alltaf mikið um að vera og starfsemi hennar vex ár frá ári.

Sköpunarmiðstöðin í miklum blóma
Una Sigurðardóttir frá Sköpunarmiðstöðinni, Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri, Rósa Valtingojer frá Sköpunarmiðstöðinni og Dýrunn Pála Skaftadóttir formaður menningar- og safnanefndar skrifa undir samninga

Í Sköpunarmiðstöðinni er alltaf mikið um að vera og starfsemi hennar vex ár frá ári. Þessi misserin er m.a. verið að vinna að ýmsum verklegum framkvæmdum svo sem að koma upp brunavarnarkerfi í bygginguna og leggja gólf í hljóðverið, Stúdíó Síló.

Við framkvæmdir eins og þessar er gjarnan reynt að nota óhefðbundinn efnivið af svæðinu. Verið er að skoða hvort hægt sé að nota timbur frá Hallormsstað í gólf hljóðversins, hvort það sé nógu þurrt.

Nýbúið er að klára keramikverkstæði sem er strax farið að nota og eykur það enn á fjölbreytnina í miðstöðinni.

Í miðstöðinni eru 7 lista-og tónlistarfólk í gestadvöl og dvelja þeir mánuð í einu. Listafólkið kemur héðan og þaðan, en nú í marsmánuði dvelja í miðstöðinni ein íslensk listakona, 3 Þjóðverjar og 3 Englendingar. Þetta er listafólk af ýmsum toga, gjörningalistamenn, leikkona, myndlistamaður, listakona sem vinnur verk úr þara og danshöfundur. Þau eru á öllum aldri, sú yngsta er 25 ára og sú elsta kominn yfir 60. Þetta er því mjög fjölbreyttur og skemmtilegur hópur. Sem dæmi um verk sem verið er að vinna er að þýskt vinapar er að setja saman myndbandsinnsetningu.

Það er ekki bara verið í gestadvöl heldur eru einnig sjálfboðaliðar á staðnum, m.a. 69 ára gamall maður frá Ástralíu. Hann er ævintýramaður, hefur flakkað um heiminn, en hefur séð eitthvað í kyrrðinni og því einstæða samfélagi sem er í Sköpunarmiðstöðinni, þar sem hann hefur dvalið síðan í ágúst.

Miðstöðin tekur einnig við starfsnemum. Einn starfsnemi kemur í einu og dvelur þá í 6 mánuði í senn. Þessi dvöl er mjög eftirsótt og er þá gerður samningur við háskóla starfsnemanna og þeir koma þá gjarnan rétt fyrir útskrift eða rétt eftir útskrift. Starfsneminn sem nú er hjá miðstöðinni er frá Tyrklandi. Mjög hæfir kandídatar sækja um og því getur valið orðið erfitt.

Samfélagið innan miðstöðvarinnar er samheldið. Fólk er komið til þess að gera skemmtilega hluti saman, kom í miðstöðina til þess að komast út úr sínu vanalega lífi. Sem dæmi má nefna var að 4 konur úr hópnum sem var í gestadvöl í janúar stofnaði pönkhljómsveit og febrúarhópurinn var alltaf að gera pönnukökukaffi saman.

Fjarðabyggð hefur stutt við starf Sköpunarmiðstöðvarinnar og nýlega var skrifað undir samning vegna þess. Á síðustu árum hefur sveitarfélagið styrkt starfsemina sem nemur álögðum fasteignagjöldum vegna húsnæðisins að Bankastræti 1 og hefur það verið um 2 milljónir króna. Samningurinn hljóðaði upp á beinan styrk upp á 2 milljónir til viðbótar.

Til þess að fylgjast með starfi Sköpunarmiðstöðvarinnar er bent á heimasíðuna inhere.is og fésbókarsíðu hennar.

Fleiri myndir:
Sköpunarmiðstöðin í miklum blóma
Rósa sýnir Dýrunni leirfuglana sem hún hannar

Frétta og viðburðayfirlit