mobile navigation trigger mobile search trigger
20.03.2024

Stóra upplestrahátíðin

Miðvikudaginn 13. mars síðastliðin var Stóra upplestrarhátíðin haldin í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði. Stóra Upplestrarkeppnin hefur verið haldin á Austurlandi í rúma tvo áratugi. Hún er tvískipt og fer fram í Fjarðabyggð og í Múlaþingi. Ræktunarhlutinn hefst ávallt á Degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember og stendur fram í mars. Á þeim tíma æfa nemendur sig í upplestri þar sem að þeir njóta leiðbeininga kennara sinna um ýmislegt er varðar flutning á texta í ræðustól.

Stóra upplestrahátíðin

Markmið keppninnar eru og hafa ávallt verið þau sömu:

  • Að vekja athygli og áhuga á vönduðum upplestri og framburði.
  • Að kennarar leggi markvissa rækt við einn þátt móðurmálsins með nemendum
  • Að fá alla nemendur til að lesa upp, sjálfum sér og öðrum til ánægju.

Í ár tóku 10 nemendur þátt úr fimm skólum í Fjarðabyggð ásamt fimm varamönnum. Dómarar voru Berglind Ósk Guðgeirsdóttir, yfirdómari, Smári Geirsson og Jórunn Sigurbjörnsdóttir. Ræðumaður var Ingibjörg Þórðardóttir íslenskukennari við Verkmenntaskóla Austurlands.

Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir sá um ljósmyndun og Guðjón Birgir Jóhannsson var hljóðmaður. Stjórnandi og kynnir keppninnar var Björg Þorvaldsdóttir.

Tónlistaratriði komu úr Tónlistarskóla Fáskrúðsfjarðar, Stöðvarfjarðar- og Breiðdals undir styrkri stjórn Valdimars Mássonar skólastjóra. Nemendur réðust ekki á garðinn þar sem að hann var lægstur en boðið var upp á framúrskarandi píónóleik og söng.

Birgir Hrafn Valdimarsson, nemandi við Breiðdals- og Stöðvarfjarðarskóla, spilaði á píanó, Prelúdíu í C dúr e. Johann Sebastian Bach og Lilja Dís Harðardóttir, nemandi í grunnskóla Fáskrúðsfjarðar, söng „No Time to die“ e. Billie Eilish og Finneas O‘Connell.

Textaskáld keppninnar í ár var Björk Jakobsdóttir, keppendur lásu upp úr bók hennar Hetja, sem kom út árið 2020. Ljóðskáld keppninnar var Bragi Valdimar Skúlason.

Úrslit urðu eftirfarandi:

  1. Júlía Fanney Jóhannsdóttir, Nesskóla
  2. Blær Ágúst Gunnars, Nesskóla
  3. Lilja Dís Harðardóttir, Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar.

Styrktaraðilar keppninnar í ár voru: Sparisjóður Austurlands, sem gaf bókaverðlaun, SÚN, Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað, sem gaf blóm, Íslandsbanki Reyðarfirði, sem gaf peningaverðlaun og Mjólkursamsalan sem ávallt gefur kókómjólk.

Fleiri myndir:
Stóra upplestrahátíðin
Verðlaunahafar: Lilja Dís Harðardóttir (3. sæti) Júlía Fanney Jóhannsdóttir (1. sæti) og Blær Ágúst Gunnars (2. sæti)

Frétta og viðburðayfirlit