mobile navigation trigger mobile search trigger
31.05.2017

Sumarið er tíminn

Með hækkandi sól fara sumarstarfsmenn sveitarfélagsins á stjá.

Sumarið er tíminn
Mynd tekin á öryggisnámskeiðinu

Eins og segir í texta Bubba Morthens þá er ...sumarið tíminn þar sem… vinnuflokkar á vegum þjónustumiðstöðva Fjarðabyggðar þeysa um allar koppagrundir hlaðnir garðvopnum í baráttu við vöxt gróðursins. Hringrás lífsins er í senn sérkennileg og kímin þar sem við eyðum löngum stundum yfir veturinn í að sakna sumarsins, grósku gróðursins, en á sumrin leggjum við allt kapp á að halda þessari grósku í skefjum.

Sumarstarfsmenn áhaldahúsanna ásamt fríðu föruneyti vinnuskólans eru afar mikilvægur liður í stöðugu kappi okkar við gróðurinn og fegrun bæjarkjarnanna okkar í Fjarðabyggð. Nú er runnið upp enn eitt gróðratímabilið með öllu því sem það tilheyrir. Við upphaf slíks tímabils er mikilvægt að huga að fræðslu þeirra sem útfæra störfin, sumarstarfsmenn áhaldahúsanna eru stærsti hluti þeirra sem það gera.

Í gær fór hið árlega öryggisnámskeið fram á Reyðarfirði og var afar vel mætt eða alls 24 sumarstarfsmenn frá 17 ára aldri. Fræðslan var í höndum Þorvaldar P. Hjarðar frá Vinnueftirlitinu og Gísla Níls Einarssonar frá tryggingafélaginu VÍS. Fóru þeir yfir vinnuöryggi, vinnuslys, öryggisfatnað, áhrif símanotkunar í vinnu, áfengi og akstur ásamt ýmsum öðrum atriðum er varða vinnuöryggi. Fjarðabyggð leggur metnað í að öryggis sé gætt á vinnustöðum sveitarfélagsins og hafa skal í huga að þó um garðyrkju sé að ræða í þessu tilviki eru störfin oft áhættusöm s.s. sláttur og rakstur við umferðargötur o.s.frv.

Þátttakendur námskeiðsins voru ekki bara áhugasamir um hversu mikilvægt það er að huga að öryggi á vinnustað heldur komu líka með ábendingar um það sem betur mætti fara hjá sveitarfélaginu sem er afar vel þegið nú í upphafi sumarsins.

Það er dyggð að hrósa, slíkt skilar árangri.

Gleðilegt sumar,                                                

Anna Berg Samúelsdóttir                             

Umhverfisstjóri

Frétta og viðburðayfirlit