mobile navigation trigger mobile search trigger
16.11.2015

Uppeldi til ábyrgðar í Fjarðabyggð

Kennarar í Fjarðabyggð sóttu nýlega námskeið í uppbyggingarstefnunni Uppeldi til ábyrgðar. Leik- og grunnskólar sveitarfélagsins hafa frá árinu 2009 starfað samkvæmt þessari stefnu.

Uppeldi til ábyrgðar í Fjarðabyggð
Cindy Brown á námskeiði með stýrihópum sem fram fór á Fáskrúðsfirði

Leiðbeinandi var Cindy Brown, frá Kanada, viðurkenndur leiðbeinandi í þessari uppeldisaðferð, en húny hefur sérhæft sig í kennslu og innleiðingu uppbyggingarstefnunnar í leik- og grunnskóla. Cindy hélt tvö námskeið, hið fyrra í Neskaupstað og þangað mættu allir starfsmenn leik- og grunnskóla í Fjarðabyggð og það síðara, sem sérstaklega var ætlað stýrihópum innan hvers skóla, var haldið á Fáskrúðsfirði.

Innleiðing uppbyggingarstefnunnar hefur gengið afar vel. Starfið er leitt af stýrihópum skólanna og því var mikilvægt fyrir þá að geta dýpkað enn betur þekkingu sína og kynnast fleiri verkfærum og aðferðum á námskeiðinu á Fáskrúðsfirði. Á starfsmannafundum í skólunum munu stýrihóparnir síðan bera þekkinguna áfram og aðstoða starfsfólk skólanna.

Innleiðingu á uppeldisaðferðinni lauk formlega á síðasta skólaári, fimm árum eftir að starfið hófst. Kennurum í leik- og grunnskólum mun svo standa til boða að sækja námskeið og fyrirlestra til að halda þekkingu sinni við og voru námskeiðin með Cindy liður í því.

Félag um Uppeldi til ábyrgðar – Uppbygging sjálfsaga var skipuleggjandi námskeiðanna og fóru þau fram í Fjarðabyggð, í Reykjavík og á Akureyri, en um 120 leik- og grunnskólar um allt land starfa samkvæmt uppbyggingarstefnunni.

Uppbygging miðar samkvæmt hugmyndafræði stefnunnar að auknum innri styrk og sjálfstrausti einstaklingsins. Mistök eru til þess að læra af og leitast er markvisst við að ýta undir jákvæð samskipti og hæfni til að taka ábyrgð á eigin orðum og gerðum. Þá er áhersla lögð á að kenna sjálfstjórn og sjálfsaga og einnig á samstöðu um tiltekin lífsgildi, sem fylgt er eftir með fáum en skýrum reglum.

Þess má svo geta að samhliða Uppeldi til ábyrgðar starfa Skólar í Fjarðabyggð samkvæmt ART-stefnunni, en stefnurnar eiga margt sameiginlegt og fara vel saman. Stefnt er að því að bjóða upp á námskeið í Arti á næsta ári.

Fleiri myndir:
Uppeldi til ábyrgðar í Fjarðabyggð
Þátttakendur á námskeiðinu með Cindy Brown á Fáskrúðsfirði.

Frétta og viðburðayfirlit