mobile navigation trigger mobile search trigger
25.04.2017

Vilt þú stuðla að plastpokalausu samfélagi?

Átt þú gamla boli sem þú ert hætt/ur að nota? Slysavarnadeildin Hafdís á Fáskrúðsfirði vill nýta þá.

Vilt þú stuðla að plastpokalausu samfélagi?

Umhverfisvakningin í sveitarfélaginu er sífellt að verða meiri og meiri. Nýverið var sagt frá Pokastöðinni í Neskaupstað þar sem saumaðir eru pokar úr gömlum bolum.

Nú hefur Slysavarnadeildin Hafdís á Fáskrúðsfirði fylgt í kjölfarið og auglýsir eftir gömlum bolum. Úr þeim verða síðan saumaðir pokar sem verða tiltækir fyrir viðskiptavini Kjörbúðarinnar á Fáskrúðsfirði. Þeir geta fengið poka lánaðan og skilað aftur næst þegar leiðin liggur í búðina, eða notað hann aftur.

Þetta geta verið alls kyns bolir eða nælonefni, t-bolir, hlýrabolir, nælon gluggatjöld eða annað gegnsætt nælonefni. Hafdís hefur komið körfu fyrir í anddyri Kjörbúðarinnar þar sem hægt er að skilja bolina eða efnið eftir. Föstudaginn 5. maí nk. verður karfan tæmd.

Íbúar eru hvattir til að fara í fataskápana, koma bolum eða nælonefnum í Kjörbúðina og leggja með því sín lóð á vogarskálarnar að markmiðinu um plastpokalausa Fjarðabyggð.

Frétta og viðburðayfirlit