mobile navigation trigger mobile search trigger
18.05.2016

Vor í Fjarðabyggð

Árlegt vorhreinsunarátak Fjarðabyggðar fer fram dagana 23. til 30. maí nk. Umhverfisvænu upplýsingariti vegna átaksins verður dreift í öll hús á næstu dögum. Bæjarstjóri boðar aukna áherslu á umhverfismál hjá sveitarfélaginu.

Vor í Fjarðabyggð

Auk þess sem fjallað er um þá þjónustu sem íbúum stendur til boða, er ýmsum hagnýtum upplýsingum komið á framfæri sem tengjast hefðbundnum vorverkum, s.s. losun garðaúrgangs og um matjurtagarða og gróðurmold.

Minnt er á leyfismál, en mikilvægt er að sótt sé um leyfi fyrir endurbótum, viðbótum og breytingum á húsnæði, þ.á m. pöllum, heitum pottum og skjólveggjum.

Einnig er fjallað ýtarlega um endurvinnslu og endurnýtingu í Fjarðabyggð. Má í því sambandi geta að um 780 tonn af endurvinnanlegum úrgangi voru flutt frá Reyðarfirði á síðasta ári til úrvinnslu. Enda þótt íbúar og fyrirtæki standi sig vel í að flokka og skila, er þó ljóst, að sveitarfélagi getur skilað enn betri árangri í úrgangsflokkun. Til mikils er að vinna í þeim efnum fyrir bæði samfélagið og náttúruna.

Í pistli Páls Björgvins Guðmundssonar, bæjarstjóra, kemur fram að sjaldan hafi legið jafn mikið fyrir í að laga umhverfið eftir veturinn og nú. Óveðrið sem gekk yfir skömmu fyrir síðustu áramót hafi víða skilið eftir sig eftir sig sár og umrót sem ráða þurfi bót á.

Þá sé ekki síður mikilvægt að sveitarfélagið geri íbúum og fyrirtækjum kleift að hugsa vel um umhverfi sitt. Framkvæmda-, umhverfis- og veitusviði hefur bæst góður liðsauki með Önnu Berg Samúelsdóttur, nýráðnum umhverfisstjóra Fjarðabyggðar og Ólöfu Vilbergsdóttur, sem tók nýlega við sem verkefnastjóri í umhverfismálum.

Sveitarfélagið er því að sögn bæjarstjóra, í stakk búið til að fylgja umhverfismálum enn betur eftir og verður samhliða því leitað eftir auknu samstarfi við íbúa og fyrirtæki í Fjarðabyggð um fegrun umhverfisins og umhverfisvænni starfshætti.

Vor í Fjarðabyggð 2016 (pdf)

Fleiri myndir:
Vor í Fjarðabyggð
Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri.

Frétta og viðburðayfirlit