Fara í efni
20.11.2025 Menning

Fimmtudagslestur á Bókasafninu á Reyðarfirði

Deildu

Fimmtudagslestur á Bókasafninu á Reyðarfirði hefur fest sig í sessi sem ánægjuleg samverustund fyrir börn og foreldra. Lesturinn hófst haustið 2022 þegar auglýst var eftir sjálfboðaliðum, og hefur starfið haldið áfram með stuttum hléum síðan.

Tvær svöruðu kallinu á sínum tíma, þær Guðlaug Björgvinsdóttir og Harpa Vilbergsdóttir, og hafa þær verið drifkraftur fimmtudagslesturins frá upphafi. Nú hafa tveir lesarar til viðbótar bæst við hópinn, Steinunn Dagmar Björgvinsdóttir og Styrmir Ingi Stefánsson, og því er ljóst að vel verður mannað í vetur. 

Viðtökurnar hafa verið góðar. Foreldrar koma oft beint úr leikskólanum með börnin. Í lestrinum eru valdar ýmist nýjar bækur eða myndabækur sem henta vel á samverustundum – og krakkarnir fá stundum að velja sjálf. 

Fimmtudagslesturinn á bókasafninu hefur verið vinsæll meðal yngstu íbúanna. Hér er Harpa Vilbergsdóttir að lesa fyrir börnin. 

Í fyrra kom Særún Hlín Laufeyjardóttir í heimsókn og las bókina sína 24 dagar til jóla í aðdraganda jólanna. Þess má geta að hún verður með útgáfuhóf í bókasafninu á Reyðarfirði 27. nóvember næstkomandi. Viðburðinn má finna hér.

Starfsfólk bókasafnsins tekur reglulega myndir og heldur utan um viðburðinn, og hvetur alla sem hafa áhuga til að kíkja við á fimmtudögum og taka þátt í þessari notalegu hefð.

Í dag mun fimmtudagslesturinn vera eins og venjulega og hefst hann klukkan 16:30. Við hvetjum foreldra, ömmur og afa, frændur og frænkur til að kíkja við.