Fara í efni
04.11.2016 Fréttir

Niðurstöður úr skuggakosningum ungmennaráðs

Deildu

Niðurstöður eru þær að Framsóknarflokkur fékk 4 þingsæti, Sjáflstæðisflokkur 3 þingsæti og Píratar, Viðreisn og Vinstri græn 1 þingsæti hvert.

Í reynd urðu úrslitin í Norðausturkjördæmi þau að Sjálfstæðisflokkurinn fékk 3 þingsæti, Framsóknarflokkurinn og Vinstri græn 2 þingsæti hvert og Píratar, Samfylkingin og Viðreisn 1 þingsæti hver.

Niðurstöðurnar voru því nokkuð afgerandi. Framsóknarflokkurinn er vinsælasti flokkurinn hjá ungmennunum í Fjarðabyggð, næst á eftir Sjálfstæðisflokknum.

Kosningarétt hafði ungt fólk á aldrinum 14 til 17 ára. Skuggakosningarnar voru alfarið hugmynd ungmennaráðs Fjarðabyggðar stutt af bæjarráði og yfirkjörstjórn Fjarðabyggðar.

Skuggakosningarnar fóru fram með sams konar móti og alþingiskosningarnar. Atkvæðaseðlar voru afhentir í kjördeildum sveitarfélagsins og þeim svo safnað í þar til gerða kjörkassa.

Með þessu móti vildi ungmennaráðið auðvelda ungu fólki að tileinka sér þau mikilvægu lýðréttindi sem almennar kosningar fela í sér og hvetja til ábyrgrar samfélagsþátttöku.

Þetta skemmtilega framtak fékk talsverða athygli og hlaut umfjöllun í m.a. Austurglugganum, Ríkisútvarpinu og Morgunblaðinu.

Í gær, fimmtudaginn 3. nóvember, kom svo ungmennráð Fjarðabyggðar saman, sem skipar jafnframt yfirkjörstjórn skuggakosninganna, og taldi atkvæði.

Á kjörskrá voru 301. Kosningaþátttaka var á heildina litið ágæt eða um 22%, en á hinn bóginn nokkuð misjöfn milli bæjarkjarna. Mest var hún á Reyðarfirði eða 39%.

Skuggakosningar í Fjarðabyggð kjörnir þingmenn (pdf)

Skuggakosningar í Fjarðabyggð þátttaka (pdf)

Skuggakosningar í Fjarðabyggð Niðurstöður (pdf)

Nánar um ungmennaráð Fjarðabyggðar