Gífurlega mikið hefur verið á dagskrá hjá Menningarstofu síðustu misseri en eftirfarandi þó helst í október.
Kvæðakórinn
Við vorum himinlifandi að fá Kvæðakórinn í listamanns dvöl til okkar í Þórsmörk þennan október. Hópurinn færði kraftmikla orku til austurs og deildi ljóða- og sönghefðum Íslendinga í gegnum vinnustofur og sýningar. Dvalartíma þeirra lauk með eftirminnilegum kvöldverði og tónleikum í Bragganum, Reyðarfirði sem einnig var hluti af dagskrá Daga Myrkus. Þar voru hefðir, frásagnir og söngur í fyrirrúmi í hlýlegu og kraftmiklu kvöldi.
Kvæðakórinn markaði lok listamannadvala í Þórsmörk 2025. Fljótlega verður aftur auglýst opið kall fyrir áhugasama listamenn sem vilja eiga möguleika á dvöl í Þórsmörk 2026 - það verður auglýst betur síðar.

ASÍ
Listasafn ASÍ setti upp sýninguna Úthverfavirkið eftir Sigurð Ámundason sem opnaði á þremur mismunandi stöðum í Fjarðabyggð 4. október og var til sýnis allan mánuðinn. Í heimsókn sinni Austur stýrði Sigurður einnig listasmiðju fyrir nemendur í 7.bekk við skólann í Neskaupstað.
Pólsk kvikmyndahátíð í Fjarðabyggð
Fimmta árlega pólska kvikmyndahátíðin í Fjarðabyggð fór fram frá 10. til 12. október og lauk með góðri mætingu og líflegri stemningu. Hátíðin, sem Rafał Koczanowicz skipulagði, bauð upp á fjölbreytt úrval pólskra kvikmynda og áhugaverð erindi frá prófessor Önnu Huth, sem naut stuðnings frá Pólsku kvikmyndastofnuninni.
Litla listahátíðin
Menningarstofa var í samstarfi við Litlu listahátíðina í Bragganum á Reyðarfirði sem fór fram í annað sinn laugardaginn 18. október 2025 í og var að þessu sinni þrískipt: Dagurinn hófst á listasmiðja fyrir börn og fjölskyldur. Karitas Harpa Davíðsdóttir og Davíð Art leiddu opna listasmiðju þar sem unnið var með akrýlliti og olíukrítar. Eftir hádegi var svo listasýning og markaður þar sem áætlað er að 200–250 gestir hafi lagt leið sína á sýninguna og markaðinn. Um kvöldið lauk hátíðinni með tónleikum. Kvöldtónleikarnir fóru fram með söngvaskáldinu Svavari Knúti og hljómsveitinni Selfoss frá Reyðarfirði. Rann allur aðgangseyrir til Krabbameinsfélags Austfjarða í tengslum við Bleikan október.
BRAS
Barnamenningarhátíðin BRAS lauk í október. Margt var um að vera á öllu Austurlandi í september og október. Viðburðir eins og Dans Afríka heimsóttu Fjarðabyggð. Áhersluverkefni Fjarðabyggðar í ár voru Grunnbúðir Skrekks. Þrjár mismunandi smiðjur áttu sér stað á Austurlandi. Hver smiðja lagði áherslu á grunnatriði sem koma að undirbúningi fyrir hæfileikakeppni eins og Skrekk.

Fyrsta smiðjan var undir handleiðslu Viktoríu Blöndal í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði en þar fór fram smiðja um handritagerð, skrif og æfingar gerðar til þess að virkja skapandi skrif. Önnur smiðjan fór fram í Sláturhúsinu á Egilsstöðum en dansarinn og söngkonan Aníta Rós kom og fór yfir ýmis atriði sem koma að sviðsframkomu, dansi og söng. Þriðja og síðasta smiðjan var smiðja í leiklist og spuna en þar komu stöllurnar Elínborg og Inga Steinunn í Valhöll á Eskifirði

Stýrihópur BRAS fór til Árósa um miðjan október með Austurbrú í fræðsluferð þar sem Fjarðabyggð átti tvo fulltrúa. Þar voru barnamenning og söfn í lykilhlutverki ferðar og mikill innblástur sóttur til frænda okkar í Danmörku.
Eva Ísleifs - Repüp
Listakonan Eva Ísleifs heimsótti unglingastig grunnskólanna á Austurlandi í október með verkefnið sitt REPÜP. Ungmennin fengu kynningu á sjálfbærni í fatasköpun og það hvað REPÜP stendur fyrir en það er dregið af orðinu repurpose. Ungmennin fengu leiðarlýsingu á hvernig er hægt að breyta og bæta föt og unnu síðan í hópum að því að búa til nýja flík. Notast var við saumavélar og málningu í þessari vinnu.
Jón Hilmar
Menningarstofa studdi við Jón Hilmar en Jón hélt af stað í tíu tónleika tónleikaferðalag um Austurland í október. Það var stórkostlegt að fylgjast með Jóni deila sviðinu með fjölbreyttum hópi hæfileikaríks listafólks á hverjum viðkomustað. Sannkallaður sambræðingur af sagnalist, ljóðlist, tónlist og spjalli.
Af söfnunum er þetta helst frá síðustu vikum:
Eins og fram hefur komið í frétt á heimasíðunni: Uppbygging Stríðsárasafnsins hefst – saga lifnar við | Fjarðabyggð hefur undirbúningur að uppbyggingu Stríðsárasafnsins hafist.

Náttúrustofa Austurlands fagnaði 30 ára afmæli sínu og var því fagnað í Safnahúsinu í Neskaupstað.
Bragginn á Reyðarfirði er að verða sífellt meira notaður undir menningarlega viðburði og voru þeir þó nokkrir í október.
Vinna hófst við safnastefnu Fjarðabyggðar. Slík stefna hefur aldrei verið unnin og því hefur safnastarfið ekki verið jafn hnitmiðað og ætla mætti. Safnastefnan verður unnin í samráði við almenning, notendur safnsins, og verður leiðarvísir í uppbyggingu safnanna.
Fimm hlaðvarpsþættir (þar af jóla-,,special") voru gerðir um söfnin í Fjarðabyggð í samstarfi við RÚV English Radio. Þeir koma út og verða síðan aðgengilegir á www.ruv.is ásamt helstu streymisveitum á aðventunni og yfir jólin.
Rafał Koczanowicz lét af störfum eftir sumartörnina. Rafał sá um leiðsagnir á franska safninu í sumar, bókanir og samskipti við ferðaþjónustufyrirtæki. Hans verður mikið saknað úr safnastörfum í Fjarðabyggð.
