Öldungaráð Fjarðabyggðar hefur síðastliðið ár eflt starfsemi sína verulega en hlutverk ráðsins er meðal annars að vera fjölskyldunefnd og bæjarstjórn til ráðgjafar í málefnum og hagsmunum íbúa 67 ára og eldri. Ráðið starfar í samræmi við reglur og samþykktir sveitarfélagsins og hefur lagt áherslu á að efla rödd eldra fólks í samfélaginu sem og að skapa vettvang fyrir samveru og samráð milli bæjarkjarna. Með því styrkist samstaða og samvinna.
Á síðasta ári fór ráðið í rýni á eigin starfsemi og í kjölfarið var mótuð starfsáætlun og settar starfsreglur sem skapa skýrari ramma um verkefni og markmið ráðsins. Meðal verkefna sem ráðið hefur sinnt eru:
- Hvatning til úrbóta á húsnæðum félaga eldra fólks
- Umsögn um þarfagreiningu á húsnæðisuppbyggingu fyrir 60 ára og eldri
- Umsögn um framtíð stríðsárasafnsins
- Fengið kynningar t.a.m. frá ráðgjöfum Securitas um öryggishnappa, upplýsingarfulltrúa Fjarðabyggðar vegna nýrrar heimasíðu og stjórnanda íþrótta- og tómstundamála vegna breytinga á Janusarverkefninu
Einnig hefur ráðið lagt til að sveitarfélagið máli einn fjólubláan bekk í hverjum bæjarkjarna en tilgangur þeirra er að vekja athygli á og stuðla að umræðu um heilabilun sem er mikilvægur þáttur í að minnka fordóma í samfélaginu. Í Fjarðabyggð er einn fjólublár bekkur nú þegar og er hann staðsettur á Eskifirði.
Í starfsáætluninni er m.a. gert ráð fyrir heimsóknum fulltrúa ráðsins á hjúkrunarheimili og til félaga eldra fólks í sveitarfélaginu, auk mánaðarlegra fræðsluviðburða. Í október mun ráðið heimsækja hjúkrunarheimilið Hulduhlíð og Félag eldra fólks á Eskifirði.
Í maí hélt lögreglan á Austurlandi fræðslu í Neskaupstað um netsvindl og í september kynnti ráðgjafi Píeta samtakanna starfsemi þeirra og veitti fræðslu á Eskifirði.
Ráðgjafi Krabbameinsfélagsins verður með fræðslu fyrir eldra fólk þann 24. október kl. 13 í húsnæði félagsins á Reyðarfirði. Upplýsingar um vIðburðinn má nálgast hér
Öldungaráð Fjarðabyggðar sýnir með þessu fram á mikilvægi virkrar þátttöku eldra fólks í samfélagsmálum og er gott dæmi um hvernig samráð og samvinna getur leitt til jákvæðra breytinga.
Fjólubláir bekkir: Fjólubláir bekkir