mobile navigation trigger mobile search trigger
04.11.2016

Niðurstöður úr skuggakosningum ungmennaráðs

Yfirkjörstjórn skuggakosninga í Fjarðabyggð, sem fóru fram samhliða alþingiskosningum 29. október sl., kom saman í gær til atkvæðatalningar. Skemmst er frá því að segja, að úrslit hefðu orðið önnur ef unga fólkið hefði fengið að ráða.

Niðurstöður úr skuggakosningum ungmennaráðs
Frá talningu atkvæða. Einn af ráðsmeðlimum átti afmæli í gær og bauð félögum sínum upp á kökusneið í tilefni af því.

Niðurstöður eru þær að Framsóknarflokkur fékk 4 þingsæti, Sjáflstæðisflokkur 3 þingsæti og Píratar, Viðreisn og Vinstri græn 1 þingsæti hvert. 

Í reynd urðu úrslitin í Norðausturkjördæmi þau að Sjálfstæðisflokkurinn fékk 3 þingsæti, Framsóknarflokkurinn og Vinstri græn 2 þingsæti hvert og Píratar, Samfylkingin og Viðreisn 1 þingsæti hver.

Niðurstöðurnar voru því nokkuð afgerandi. Framsóknarflokkurinn er vinsælasti flokkurinn hjá ungmennunum í Fjarðabyggð, næst á eftir Sjálfstæðisflokknum.

Kosningarétt hafði ungt fólk á aldrinum 14 til 17 ára. Skuggakosningarnar voru alfarið hugmynd ungmennaráðs Fjarðabyggðar stutt af bæjarráði og yfirkjörstjórn Fjarðabyggðar.

Skuggakosningarnar fóru fram með sams konar móti og alþingiskosningarnar. Atkvæðaseðlar voru afhentir í kjördeildum sveitarfélagsins og þeim svo safnað í þar til gerða kjörkassa.

Með þessu móti vildi ungmennaráðið auðvelda ungu fólki að tileinka sér þau mikilvægu lýðréttindi sem almennar kosningar fela í sér og hvetja til ábyrgrar samfélagsþátttöku.

Þetta skemmtilega framtak fékk talsverða athygli og hlaut umfjöllun í m.a. Austurglugganum, Ríkisútvarpinu og Morgunblaðinu.

Í gær, fimmtudaginn 3. nóvember, kom svo ungmennráð Fjarðabyggðar saman, sem skipar jafnframt yfirkjörstjórn skuggakosninganna, og taldi atkvæði.

Á kjörskrá voru 301. Kosningaþátttaka var á heildina litið ágæt eða um 22%, en á hinn bóginn nokkuð misjöfn milli bæjarkjarna. Mest var hún á Reyðarfirði eða 39%.

Skuggakosningar í Fjarðabyggð kjörnir þingmenn (pdf)

Skuggakosningar í Fjarðabyggð þátttaka (pdf)

Skuggakosningar í Fjarðabyggð Niðurstöður (pdf)

Nánar um ungmennaráð Fjarðabyggðar

Frétta og viðburðayfirlit