mobile navigation trigger mobile search trigger
03.03.2017

Fiskeldi í Fjarðabyggð

Fjölmennt var á kynningarfundi um fiskeldismál í Grunnskóla Reyðarfjarðar í gærkvöld.

Fiskeldi í Fjarðabyggð
Gunnar Steinn svarar fyrirspurn

Fiskeldismál eru mikið í deiglunni og fundinum var ætlað að upplýsa íbúa og aðra um stöðu þeirra. Frummælendur voru frá sveitarfélaginu, Hafrannsóknarstofnun, Skipulagsstofnun og Löxum fiskeldi, sem hafa fengið úthlutuðu leyfi fyrir fiskeldi í Reyðarfirði. Voru fyrstu þrjú erindin 20 mínútur en það síðasta 15 mínútur.

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri, hóf dagskrá og fór yfir málið frá sjónarhóli sveitarfélagsins. Hann fór yfir málið vítt og breitt og ítrekaði þá afstöðu sveitarfélagsins að eðlilegast væri að sveitarfélög hefðu skipulagsvald yfir fjörðum.

Næstur á mælendaskrá var Héðinn Valdimarsson, sviðsstjóri hjá Hafrannsóknarstofnun, sem fjallaði um burðarþol fjarða og hvernig stofnunin færi að því að finna það út. Tók Héðinn dæmi af Vestfjörðum og héðan að austan.

Þriðji í röðinni var Sigmar Arnar Steingrímsson, sérfræðingur á umhverfismatssviði Skipulagsstofnunar, sem fjallaði um ferlið við mat á umhverfisáhrifum og sérstaklega hvað varðar fiskeldi. M.a. sagði hann frá þeim þáttum sem teknir eru til skoðunar þegar mat á umhverfisáhrifum fer fram.

Síðastur var Gunnar Steinn Gunnarsson, rekstrarstjóri Laxar fiskeldi ehf., sem kynnti áform fyrirtækisins hvað varðar fiskeldi í Fjarðabyggð. Sagði hann m.a. frá því að búið væri að ráða 10 starfsmenn og kvíar ásamt öðrum búnaði væru komnar á Reyðarfjörð.

Eftir erindin var stutt kaffihlé og síðan tóku við fyrirspurnir. Þar sátu frummælendur fyrir svörum en auk þess bættust við Hafsteinn Guðfinnsson, sérfræðingur á umhverfissviði Hafrannsóknarstofnunar, Hólmfríður Bjarnadóttir, sviðsstjóri hjá Skipulagsstofnun og Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar. Þónokkur fjöldi fyrirspurna af ýmsum toga kom og mikill áhugi á að vita meira um efnið.

Hér fyrir neðan er hægt að finna glærur sem tengjast erindunum.

Gunnar Steinn - Laxar fiskeldi

Héðinn - Burðarþol fjarða

Páll Björgvin - Staða fiskeldismála í Fjarðabyggð

Sigmar Arnar - Mat á umhverfisáhrifum

Fleiri myndir:
Fiskeldi í Fjarðabyggð
Sigmar fjallar um atriði sem eru skoðuð þegar mat á umhverfisáhrifum fer fram

Frétta og viðburðayfirlit